Hoppa yfir valmynd
24. september 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Rafræn skilríki byggja á traustri grunngerð

Bjarni Benediktsson á World e-ID
Bjarni Benediktsson flutti lykilræðu á ráðstefnunni World e-ID

Íslenska ríkið hefur undanfarinn áratug unnið að því að búa til trausta grunngerð um rafræna þjónustu sem er tvímælalaust hagkvæmt til lengri tíma litið. Hluti af því er markviss uppbygging á grunngerð fyrir rafræn skilríki sem hófst hér á landi eftir að lög um rafrænar undirskriftir voru samþykkt um síðustu aldamót.  Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra sem í dag flutti lykilræðu á World e-ID Congress, tíundu heimsráðstefnunni um rafræn skilríki sem fram fer í Marseille í Frakklandi. 


Í ræðu sinni á ráðstefnunni fjallaði ráðherra um hversu mikilvægt er að búa að öflugri grunngerð, en íslenska ríkið hefur byggt upp svokallað dreifilyklaskipulag (PKI). Rafræn skilríki, sem gefin eru út undir því skipulagi, veita hæsta öryggisstig sem kostur er á auk þess sem þau eru hæf til þess að framkvæma rafrænar undirskriftir.

„Með góðri grunngerð er hægt að veita betri þjónustu og öll rafræn samskipti verða öruggari,“ benti ráðherra á en í ræðu sinni rakti hann breytt samskipti almennings við stjórnvöld og ríkari kröfu um rafræna ferla í samfélaginu. 

„Langflestir kjósa að verja tíma sínum í annað en biðraðir á stofnunum og við þessu þarf að bregðast. Með aukinni rafrænni þjónustu höfum við tækifæri til að bæta þjónustuna umtalsvert, spara verðmætan tíma borgaranna og ná fram hagræðingu í rekstri, auk þess sem rafræn þjónusta er mun umhverfisvænni en þjónusta sem byggist á pappírsafgreiðslu. Gjarnan er litið á Ísland sem áhugaverðan stað til að reyna nýjungar. Við erum fámenn og það hefur oft reynst vel að innleiða heildarlausnir fyrir alla landsmenn, þótt við glímum vissulega við ýmsa hagsmunaárekstra líkt og  aðrar þjóðir. Íslendingar eru að öllu jöfn nýjungagjarnir og ágætlega tæknivæddir,“ sagði Bjarni.

Ráðherra ræddi rafræn skilríki og benti á að stjórnvöld væru farin að krefjast notkunar þeirra, en það væri gert á grunni öryggissjónarmiða.  Hann vék að aðgerðum stjórnvalda til leiðréttingar verðtryggðra fasteignalána.

„Sú krafa er gerð að fólk nýti rafræna undirskrift með rafrænum skilríkjum þegar það samþykkir útreikning leiðréttingarfjárhæðar, en þetta er í fyrsta skiptið sem ríkið krefst þess að borgarar noti rafræn skilríki.  Þetta sýnir hversu mikilvægt það er fyrir ríkið að eiga þá grunngerð sem við höfum tryggt þegar ráðist er í jafn stórt verkefni og þetta. Ég er heldur ekki í nokkrum vafa um að fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki munu í kjölfarið auka framboð á rafrænni þjónustu, þar sem beitingu rafrænna skilríkja verður krafist því útbreiðslan verður orðin viðunandi. Ríkið hefur jafnframt boðað að rafræn skilríki verða notuð í stórauknu mæli á næstu misserum,“ sagði ráðherra í ræðu sinni á ráðstefnunni. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum