Hoppa yfir valmynd
9. september 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Rafræn skilríki auka öryggi

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vill taka eftirfarandi fram um nýtingu rafrænna skilríkja og ráðstöfun fjármuna til höfuðstólslækkunar verðtryggðra skulda:


  • Í aðgerðinni felst í að ríkissjóður verður greiðandi að hluta fasteignaveðlána umsækjenda. Fjárhæðinni er ráðstafað inn á lán sem hvílir á fyrsta veðrétti á heimili umsækjanda. Ekki er tryggt að hann sé skráður skuldari þess láns. Því er þess krafist að samþykki fyrir ráðstöfuninni sé staðfest með sannanlegum hætti.

  • Rík áhersla er lögð á að allt ferlið, sem lýtur að lækkun höfuðstóls verðtryggra skulda, sé rafrænt, en afgreiða þarf 69 þúsund umsóknir frá 105 þúsund einstaklingum.  Mikilvægt er að samþykki fyrir ráðstöfun inn á lán sé óhrekjanlegt, en í þúsundum tilvika hafa orðið breytingar á hjúskaparstöðu og lánum þeirra einstaklinga sem í hlut eiga. Þess vegna er fullgildrar rafrænnar undirritunar krafist.

  • Rafræn skilríki eru einu skilríkin sem gefa möguleika til fullgildrar rafrænnar undirritunar. Veflykill ríkisskattstjóra fullnægir ekki þeim öryggiskröfum sem ráðstöfunin krefst.

  • Rafræn skilríki byggja á Íslandsrót sem er alfarið í eigu ríkisins og lýtur  stjórn þess. Á grundvelli samnings ríkisins við Auðkenni er fyrirtækinu falið að gefa út rafræn skilríki til einstaklinga. Stjórnvöld setja ströng skilyrði um útgáfuna og starfsemin er undir opinberu eftirliti Neytendastofu. Ríkið getur gert samninga við fleiri fyrirtæki um að verða milliliðir við útgáfu rafrænna skilríkja.

Rafræn skilríki auka öryggi og þægindi umsækjanda. Þau eru eina auðkennisleiðin sem stendur undir þeim öryggiskröfum sem ríkisskattstjóri telur nauðsynlegar fyrir ráðstöfun þeirra fjármuna sem umsækjendur um lækkun höfuðstóls húsnæðisskulda fá í sinn hlut. Þess vegna hafa rafræn skilríki verið valin til staðfestingar á ráðstöfun Leiðréttingarinnar.

Spurt og svarað um rafræn skilríki

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum