Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2014 Forsætisráðuneytið

Samið við ráðgjafa um vinnu vegna losunar fjármagnshafta

Fjármála- og efnahagsráðuneyti hefur, að höfðu samráði við ráðherranefnd um efnahagsmál og stýrinefnd um losun fjármagnshafta, samið við lögmannsstofuna Cleary Gottlieb Steen & Hamilton LLP og ráðgjafafyrirtækið White Oak Advisory LLP um að vinna með íslenskum stjórnvöldum að losun fjármagnshafta. Hjá Cleary Gottlieb Steen & Hamilton starfar lögmaðurinn Lee Buchheit sem mun stýra vinnu lögmannsstofunnar í þessu verkefni. 

Þá mun Anne Krueger prófessor í hagfræði við John Hopkins University og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins veita íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf, einkum er snýr að þjóðhagslegum skilyrðum við losun hafta og veitingu undanþága. Jafnframt mun fjárfestingabankinn JP Morgan liðsinna stjórnvöldum vegna lánshæfismats Íslands.

Ráðning þessara erlendu ráðgjafa er liður í vinnu stjórnvalda við að létta fjármagnshöftum af íslensku efnahagslífi en það er eitt mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar. Verið er að vinna á heildstæðri lausn sem tekur á öllum þáttum fjármagnshaftanna, þar með talið uppgjör slitabúanna, en eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er brýnt að skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja ógni ekki efnahagslegum stöðugleika. Erlendu ráðgjafarnir hafa þegar fengið kynningu á stefnumörkun og undirbúningi íslenskra stjórnvalda að afnámi hafta, m.a. skýrslu ráðgjafahóps um afnám hafta og greiðslujafnaðargreiningu Seðlabanka Íslands.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur ráðið fjóra sérfræðinga til að vinna að losun hafta með fyrrgreindum ráðgjöfum í umboði stýrinefndar. Þeir eru Benedikt Gíslason, ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðherra í haftamálum, Eiríkur Svavarsson, hrl., Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands og Glenn Kim sem jafnframt leiðir verkefnið. Glenn Kim hefur starfað í aldarfjórðung í alþjóðafjármálaumhverfi. Eftir fjármálahrunið hefur Kim m.a. starfað sem sérstakur ráðgjafi þýska fjármálaráðuneytisins vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar á evrusvæðinu.  

Verkefninu verður skipt í nokkra verkþætti. Eitt fyrsta verkefnið er að setja fram þau þjóðhagslegu skilyrði sem nauðsynleg eru talin með hliðsjón af efnahagslegum stöðugleika. Að því verki munu meðal annars koma White Oak Advisory og Anne Krueger. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum