Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkissjóður gefur út skuldabréf í evrum

Ríkissjóður Íslands hefur í dag gengið frá samningum um útgáfu skuldabréfa að fjárhæð 750 milljónir evra, sem jafngildir um 116 milljörðum króna. Er þetta fyrsta opinbera útgáfa ríkissjóðs í Evrópu síðan 2006.

Skuldabréfin bera 2,5% fasta vexti og eru gefin út til 6 ára á ávöxtunarkröfunni 2,56%. Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn um 2 milljörðum evra.  Fjárfestahópurinn er vel dreifður og samanstendur aðallega af fagfjárfestum frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Umsjón var í höndum Citibank, Barclays, Deutsche Bank og J.P. Morgan.

„Útgáfa skuldabréfanna markar tímamót og er afar jákvætt skref í endurreisn íslensks efnahagslífs.  Ríkissjóður er að sýna fram á fulla burði til þess að fjármagna skuldir sínar á Evrópumarkaði, þeim markaði sem mestu skiptir fyrir fjármögnun ríkja.  Kjör ríkissjóðs á erlendum mörkuðum hafa batnað verulega síðustu mánuði, sem gefur okkur færi á að lækka vaxtagjöld ríkissjóðs og því nýtum við tækifæri nú þegar aðstæður skapast fyrir hagstæða lántöku.  Með útgáfunni er greitt fyrir bættum aðgangi fyrir innlenda aðila sem sækja í erlent lánsfé,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Viðbrögð fjárfesta voru mjög góð og eftirspurn var nærri þreföld upphæð útgáfunnar. „Eftirspurn markaðsaðila eftir skuldabréfunum sýnir tiltrú þeirra á íslensku efnahagslífi og þeim árangri sem náðst hefur í ríkisfjármálum,“ segir Bjarni Benediktsson.

Andvirði útgáfunnar verður varið til þess að nýta heimild til forgreiðslu eftirstöðva tvíhliða lána til Íslands frá Norðurlöndunum, sem tekin voru í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 2008. „Það að við fáum nú á markaði u.þ.b. 1% lægri vexti en okkur stóðu til boða við fjármögnun efnahagsáætlunarinnar sýnir stóraukið traust á Íslandi,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.

Útgáfa skuldabréfanna er í samræmi við stefnu í lánamálum ríkisins þar sem markmiðin eru meðal annars þau að tryggja aðgengi að erlendum lánsfjármörkuðum til lengri tíma og að stórum og fjölbreyttum hópi fjárfesta.

Reykjavík, 8. júlí 2014

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum