Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2014 Forsætisráðuneytið

Aðgerðir til að styðja við verðlagsstöðugleika kynntar í ríkisstjórn

Með kjarasamningi sem undirritaður var þann 21. desember sl. og tekinn til atkvæðagreiðslu nú í janúar vildu samningsaðilar ná samstöðu um að rjúfa vítahring verðbólgunnar. Ríkisstjórnin studdi þessa viðleitni samningsaðila með yfirlýsingum frá 15. nóvember og 21. desember sl. 

Sem kunnugt er var kjarasamningur felldur í um helmingi aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Þrátt fyrir það telur ríkisstjórnin brýnt að boðaðar gjaldalækkanir ríkisins og samstarf hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins um mikilvæg svið efnahagsstefnunnar komi til framkvæmda. 

Verðbólga hefur farið lækkandi að undanförnu. Í nýjustu mælingu Hagstofu Íslands lækkaði verðbólga síðustu 12 mánaða úr 4,2% í 3,1%. Verðlag lækkar í janúar í ár en hækkaði á síðasta ári. Áhrif gjaldskrárhækkana opinberra aðila til hækkunar verðlags eru mun minni í janúar í ár en á síðasta ári. Í þessu felast jákvæðar vísbendingar um að forsendur til að ná verðlagsstöðugleika séu fyrir hendi.

Á ríkisstjórnarfundi í dag lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp um gjaldalækkanir ríkissjóðs. Með frumvarpinu eru efnd gefin fyrirheit um að lækka gjaldtöku ríkisins. Gjaldtaka ríkissjóðs lækkar um samtals 460 m.kr. miðað við samþykkt fjárlög. 

Þá hafa ráðherrar í ríkisstjórn sinnt eftirliti, að beiðni fjármála- og efnahagsráðherra, með því að stofnanir sem undir þá heyra, eða aðrir aðilar sem veita þjónustu sem áhrif hefur á vísitölu neysluverðs, skuli gæta ítrasta aðhalds og styðja við verðlagsforsendur kjarasamninga. Þessi viðleitni hefur þegar borið árangur og leitt til þess að nokkur orkufyrirtæki hafa fallið frá fyrirhuguðum hækkunum, þ.m.t. RARIK og Orkubú Vestfjarða.  Ríkisstjórnin mun áfram hvetja til þess að fyrirtæki í eigu ríkisins gæti ítrasta aðhalds og  bregðist við með öðrum aðgerðum í rekstri en hækkun á verði vöru og þjónustu. 

Forsætisráðherra hefur í dag skipað fastanefnd um samskipti ríkisins, sveitarfélaga og heildarsamtaka aðila á vinnumarkaði. Hlutverk hennar er að hafa yfirsýn yfir regluleg samskipti þessara aðila og vera vettvangur hugmynda og skoðanaskipta um sameiginleg hagsmunamál. 

Forsætisráðherra hefur jafnframt beint því til fastanefndarinnar að skipuleggja aðgerðir til að fylgjast með og vinna gegn hækkun  verðlags. Þá skal nefndin jafnframt skoða leiðir til að sporna gegn sjálfvirkri vísitöluhækkun ýmissa samninga á markaði, svo sem þjónustusamninga fyrirtækja, leigusamninga og verksamninga. 

Í nefndinni eiga sæti: 

  • Benedikt Árnason, forsætisráðuneyti, formaður
  • Sigurður H. Helgason, fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, velferðarráðuneyti
  • Kristján Skarphéðinsson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
  • Ásta Magnúsdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti
  • Gunnar Björnsson, samninganefnd ríkisins
  • Halldór Halldórsson, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Karl Björnsson, Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Þorsteinn Víglundsson, Samtökum atvinnulífsins
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Samtökum atvinnulífsins
  • Gylfi Arnbjörnsson, Alþýðusambandi Íslands
  • Signý Jóhannsdóttir, Alþýðusambandi Íslands
  • Elín Björg Jónsdóttir, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja
  • Guðlaug Kristjándóttir, Bandalagi háskólamanna og
  • Þórður Hjaltested, Kennarasambandi Íslands. 
(Sameiginleg fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum