Hoppa yfir valmynd
10. janúar 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Verkefnisstjórn um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðalána

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað verkefnisstjórn til að annast framkvæmd almennrar höfuðstólslækkunar íbúðalána heimilanna. Verkefnisstjórninni er ætlað að hafa yfirumsjón með undirbúningi og framkvæmd verkefnisins. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjóri og annað nauðsynlegt starfslið starfi með verkefnisstjórninni.

Nefndin er skipuð í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar frá 30. nóvember 2013,  sem miðar að því að lækka húsnæðisskuldir heimila í landinu. Annars vegar er um að ræða lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána og hins vegar skattaívilnun vegna ráðstöfunar framtíðar séreignarlífeyrissparnaðar til greiðslu húsnæðisskulda eða kaupa á húsnæði.


Verkefnisstjórnin er þannig skipuð:
Guðrún Ögmundsdóttir, fjármála- og efnahagsráðuneyti, formaður,
Guðmundur Pálsson, fjármála- og efnahagsráðuneyti,
Benedikt Árnason, forsætisráðuneyti,
Sigrún Ólafsdóttir, forsætisráðuneyti,
Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, velferðarráðuneyti.

Hlutverk verkefnisstjórnarinnar snýr m.a. að eftirfarandi verkþáttum:
• Aðgerðar- og kostnaðaráætlun
• Undirbúningi lagafrumvarps
• Framkvæmd skuldaleiðréttingar
• Úttekt á áhrifum leiðréttingar á hópa
• Eftirliti með leiðréttingarferli

Verkefnisstjórnin getur í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið stofnað undirhópa til að móta útfærslur einstakra verkþátta og fylgja þeim eftir. Þannig er miðað við að sérstakur hópur hefji þegar undirbúning nauðsynlegrar lagasetningar vegna aðgerðanna.

Skipunartími verkefnisstjórnarinnar er til eins árs en mögulegt er að það tímabil verði framlengt ef nauðsynlegt þykir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum