Hoppa yfir valmynd
3. október 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Opinber rekstur skipulagður með sem hagkvæmustum hætti

Fjármála- og efnahagsráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna
Fjármála- og efnahagsráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Huga þarf að því að opinber rekstur sé skipulagður með eins hagkvæmum hætti og hægt er. Þetta kom fram í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag.

Bjarni benti á að í opinberum rekstri, sem væri sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga, þyrfti að líta til allra mögulegra liða við að bæta rekstur. Skipuleggja þyrfti hann með eins hagkvæmum hætti og hægt er, leita leiða til samvinnu í einkageiranum þar sem það á við og reka þjónustuverkefni á sem hagkvæmastan hátt.

Fjármál opinberra aðila ein heild

Bjarni benti á að færsla verkefna frá  ríki til sveitarfélaga kynni að vera ein af lausnunum í þessu efni. „Það er mjög áríðandi að skjóta traustari stoðum undir samræmda, opinbera fjármálastjórn," sagði Bjarni. Almennt væri viðurkennt að skynsamlegt væri að líta á fjármál opinberra aðila sem eina heild.

Bjarni fór yfir þann vöxt sem orðið hefur á umsvifum sveitarstjórnarstigsins á liðnum árum.
„Verkefni hafa verið flutt frá ríki til sveitarfélaga. Nú er svo komið að 30% af útgjöldum hins opinbera fer í gegnum sveitarfélögin. Skuldir sveitarfélaganna eru um 11% af skuldum hins opinbera,“ sagði ráðherra.

Hann vék að málefnum fatlaðra sem voru síðasti stóri flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Bjarni sagði að  í burðarliðnum væri samningur sem ætlað væri að leysa úr þeim vandamálum sem upp hefðu komið í ferlinu og kalla mætti byrjunarörðugleika.
„Verkefnið er fjármagnað með hækkun útsvars en ef fleiri verkefni verða færð til sveitarfélaganna þarf að vanda vel til verka með fjármögnun,“ sagði Bjarni.

Afkomumarkmið hafa jákvæð áhrif

Bjarni sagði að í nýjum sveitarstjórnarlögum væri komið á fjármálalegum reglum um afkomu þeirra og skuldastöðu. Afkomumarkmiðin hefðu jákvæð og agandi áhrif en hins vegar væri það langtímaverkefni hjá allnokkrum sveitarfélögum að koma skuldahlutfalli niður á það stig sem lögin gera ráð fyrir.

 „Þau eru í mismunandi stöðu til þess að gera á eigin spýtur ráðstafanir til þess að það verði hægt. Ég verð þó að segja fyrir mitt leyti að mér finnst á margan hátt hafa tekist aðdáunarlega vel til, ekki síst hjá þeim sem í hvað mestum vanda voru, “ sagði ráðherra.

Frumvarp um opinber fjármál mikilvægt veganesti

Bjarni vék að frumvarpi um opinber fjármál sem unnið er að í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Búið væri að vinna miklu undirbúningsvinnu vegna málsins, en þetta verkefni hefði farið af stað skömmu eftir hrun, m.a. í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

„Það var eitt af mínum fyrstu verkum að taka sérstaka ákvörðun um að setja á fullt stím áfram og ljúka þessari vinnu. Ég vonast til þess að geta lagt fyrir Alþingi í nóvember það frumvarp sem hér er undir,“ sagði Bjarni en frumvarpið væri gott veganesti inn í framtíðina.

Nýtt frumvarp hefði það leiðarljós að nálgast hlutina með nýjum hætti, auka aga og formfestu en leiða jafnframt til einföldunar. Í frumvarpinu fælust töluvert miklar breytingar í opinberum fjármálum. Horft væri til lengri tíma sem væri mikilvægt, en tryggja þurfi að við getum ráðið við þær skuldir og skuldbindingar sem við höfum axlað.

 „Þannig bætum við best lífskjörin í landinu, sem er langtímamarkmið okkar allra, sama hvort við störfum á vettvangi  ríkismálanna eða hjá sveitarstjórnarstiginu,“ sagði ráðherra í ræðu sinni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna.

Fjármála- og efnahagsráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum