Hoppa yfir valmynd
27. september 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræddu áskoranir ríkiskerfisins

Angel Gurría og Bjarni Benediktsson.
Angel Gurría og Bjarni Benediktsson.

Áskoranir sem íslensk stjórnvöld standa frammi fyrir varðandi umbætur á skipulagi og stjórnun í ríkiskerfinu voru meginumræðuefni á fundi Angel Gurría, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofunarinnar (OECD) og íslenskra ráðherra í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Gurría er staddur hér á landi í opinberri heimsókn í boði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, en heimsókninni lýkur á morgun.  Hann fundaði í dag með fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.

OECD er leiðandi stofnun á sviði opinberrar stjórnunar og umbótastarfs í ríkisrekstri. Á fundi Gurría með ráðherrunum var rætt hvernig megi með umbótum á skipulagi og stjórnun ríkiskerfins draga úr kerfislægum ágöllum og byggja upp einfaldari, markvissari og árangursríkari opinbera þjónustu. Rætt var með hvaða hætti OECD gæti stutt við þessa þróun.

Gurría var fyrr í dag aðalfyrirlesari á alþjóðlegu ráðstefnunni  „The Future Ain´t What it Used to Be“ – 20 years of Competition Law and the Challenges Ahead“. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála stóðu að ráðstefnunni, en þar var fjallað um samkeppnismál í litlu hagkerfi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum