Hoppa yfir valmynd
20. september 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Framkvæmdastjóri OECD heimsækir Ísland

Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD. Mynd:Hervé Cortinat
Angel Gurria, framkvæmdastjóri OECD. Mynd:Hervé Cortinat

Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), verður í opinberri heimsókn á Íslandi dagana 26-28. september næstkomandi. Gurría kemur hingað í boði Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra.

Gurría verður aðalfyrirlesari á alþjóðlegu ráðstefnunni „The Future Ain´t What it Used to Be“ – 20 years of Competition Law and the Challenges Ahead“, en ráðstefnan fer fram í Reykjavík 27. september. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Samkeppniseftirlitið og áfrýjunarnefnd samkeppnismála standa að ráðstefnunni. Þar verður fjallað um samkeppnismál í litlu hagkerfi og þær áskoranir sem við blasa.

Meðan á heimsókn Gurría stendur mun hann funda með forsætisráðherra og forseta Íslands. Hann mun jafnframt eiga fund með íslenskum ráðherrum um umbætur á skipulagi og stjórnun ríkiskerfisins til að draga úr kerfislægum ágöllum og byggja upp einfaldari, markvissari og árangursríkari opinbera þjónustu

Angel Gurría hefur stýrt OECD frá árinu 2006. Hann gegndi áður embættum fjármálaráðherra og utanríkisráðherra í Mexíkó.


OECD  hefur það markmið  að efla hagvöxt í heiminum og bæta lífsgæði og félagslega velferð, með því að hafa áhrif á stefnumörkun stjórnvalda. Stofnunin er leiðandi í tölfræðiúttektum og samanburðarrannsóknum í opinberri stjórnsýslu.

OECD er í forystu við baráttu gegn skattaparadísum, vinnur í fjárfestinga- og gjaldeyrismálum og þróar reglur um þróunaraðstoð svo nokkuð sé nefnt. Stofnunin  gerir úttekt á íslenskum efnahagsmálum annað hvert ár og vinnur nú að skýrslu um umhverfismál á Íslandi.


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum