Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum óbreyttar frá fyrra ári

Veiðigjöld næsta árs verða 10 milljarðar króna, sem er svipuð upphæð og innheimtist í ár og á síðasta ári.  Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Björns Vals Gíslasonar og Edwards Huijbens um tekjulækkun ríkissjóðs þar sem meðal annars er vikið að veiðigjöldum.

Í umræðum í þinginu í gær um störf ríkisstjórnarinnar sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra að fyrri stjórnvöld hefðu haft uppi áform um að hækka veiðigjaldið og á næsta ári hefði staðið til að gjöldin yrðu um 16 milljarðar króna. Fyrri ríkisstjórn hefði hins vegar skilið þannig við lög um málið að álagning gjaldsins hefði verið óframkvæmanleg.

„Á næsta ári eru nákvæmlega sömu veiðigjöld tekin af þessari ríkisstjórn og hafa verið tekin síðastliðin tvö ár. Það er ágætt að hafa þetta í huga þegar menn eru að tala um að nýja ríkisstjórnin sé að kasta frá sér tekjustofnum. Staðreynd málsins er sú að útgerðin í landinu hefur líklega aldrei greitt hærri gjöld og skatta heldur en einmitt í dag til samfélagsins,“ sagði ráðherra í ræðu sinni.

Hnökrar í eldri lagasetningu

Í fyrirspurn þingmanna til fjármála- og efnahagsráðherra um tekjulækkun ríkissjóðs er m.a. vikið að tekjum af veiðigjöldum. Spurt var  hversu miklum tekjum ríkissjóður yrði af á næsta ári vegna fyrirhugaðrar lækkunar á veiðigjöldum miðað við áætlun veiðigjaldanefndar um væntanlegar tekjur. Þá var spurt hvort gripið hefði verið til sérstakra aðgerða til að mæta fyrirséðu tekjutapi ríkissjóðs af þessum sökum eða hvort slíkt stæði til.

Í svari fjármála- og efnahagsráðherra er bent á að í lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, sé sérstakri nefnd, veiðigjaldanefnd, falið að ákvarða sérstakt veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár sem ráðherra birti ásamt almennu veiðigjaldi í reglugerð fyrir 15. júlí ár hvert. Í svarinu segir einnig:

Vegna hnökra í eldri lagasetningu tókst veiðigjaldsnefnd ekki að afla nauðsynlegra gagna til að meta mætti auðlindarentu veiða og vinnslu, sem er undirstaðan í álagningu sérstaka veiðigjaldsins, í tæka tíð fyrir komandi fiskveiðiár. Þessi staða kallaði á breytingar á lögunum sem samþykktar voru í júní sl. í þá veru að álagning almenna og sérstaka veiðigjaldsins var fastsett fyrir fiskiveiðiárið 2013/2014 með líkum hætti og á  nýliðnu fiskveiðiári 2012/2013.

Eins og segir í greinargerð með umræddri lagabreytingu er með þessu verið að skapa svigrúm til endurskoðunar laganna á komandi þingi í ljósi stefnumótunar ríkisstjórnarinnar og þeirrar gagnrýni sem hefur að þeim beinst, sem og þeim erfiðleikum sem komið hafa í ljós við framkvæmd þeirra. Við fastsetningu gjaldanna var við það miðað að innheimt veiðigjöld næmu 9,8 mia kr. á árinu 2014. Þetta felur í sér  lækkun gjaldsins frá því sem fyrri ríkisstjórn hafði reiknað með, eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu.

Áhrif á tekjuáætlun ef veiðigjald er 9,8 ma.kr. 2013/2014 og 2014/2015

 
2013
2014
Milljarðar króna Rekstrargrunnur Greiðslugrunnur Rekstrargrunnur Greiðslugrunnur
Fjárlög 2013
13,5
12,6
16,2
14,5
Eftir breytingar (frumvarp)
10,3
11,7
9,8
9,8
Munur
-3,2
-0,9
-6,4
-4,7

Auknar tekjuskattsgreiðslur

Einnig þarf að horfa til þess að veiðigjöld teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Að öðru óbreyttu ætti því lækkun veiðigjalda að auka tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja um allt að 20% af lækkun veiðigjalda, þar sem lægri veiðigjöld leiða til minni frádráttar frá tekjum.

Tekjur af veiðigjöldum (m.kr.)

Tekjur af veiðigjöldum (m.kr.)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum