Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðgjafaráð um efnahagsmál og opinber fjármál

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað sérstakt ráðgjafaráð um efnahagsmál og opinber fjármál. Hlutverk ráðsins er að veita ráðherra ráðgjöf og aðstoð við verkefni á sviði efnahagsmála og fjármála hins opinbera, og liðsinna ráðherra og ráðuneyti hans við stefnumörkun á þeim sviðum.

Ráðið verður ráðherra til aðstoðar við greiningu, mat á horfum og stefnumörkun í efnahagsmálum og við mótun ríkisfjármálastefnu til skemmri og lengri tíma, með áherslu á tekjuöflun og útgjaldaþróun.

Ráðið er skipað til eins árs og tekur skipan þess gildi í dag.

Ráðgjafaráðið skipa dr. Ragnar Árnason, prófessor við Háskóla Íslands, sem er formaður,  dr. Þráinn Eggertsson, prófessor við Háskóla Íslands, Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, hagfræðingur. Með ráðinu starfar Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra.

Ráðið hefur heimild til að afla sér frekari sérfræðiaðstoðar í samráði við ráðuneytið. Þá mun ráðgjafaráðið starfa náið með starfsmönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins og ráðuneytið veitir hópnum þá aðstoð sem því er unnt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum