Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning á einstaklinga 2013

Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga.

Álagningin 2013 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2012 og eignum þeirra í lok árs 2012. Helstu niðurstöður álagningarinnar eru eftirfarandi:

  • Framteljendum fjölgar um 0,9%  milli ára og eru 264.193. Framteljendur eru nú 3.300 færri en þegar þeir voru flestir árið 2009. Alls fengu 158.455 einstaklingar álagðan almennan tekjuskatt og 253.606 fengu álagt útsvar.
  • Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2013 vegna tekna árið 2012 nemur 932 ma.kr. og hefur aukist um 6,4% frá fyrra ári. Skattstofnsins var aflað af tæplega 240 þúsund einstaklingum og fjölgaði um 0,9% í þeim hópi eða um rúmlega tvö þúsund einstaklinga.
  • Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 243,5 ma.kr. og hækkar um 6,8% frá fyrra ári. Álagður tekjuskattur nemur tæplega 43% af fjárhæðinni og útsvar rúmlega 57%.
  • Almennur tekjuskattur nemur 104,3 ma.kr. og var lagður á rúmlega 158 þúsund framteljendur. Álagningin eykst um 7,0% á milli ára og gjaldendum fjölgar um 1,6%.
  • Útsvarstekjur sveitarfélaga nema 139,2 ma.kr. sem er 6,7% aukning á milli ára. Útsvar reiknast af öllum skattstofninum, en ríkissjóður greiðir hluta útsvarsins í formi ónýtts persónuafsláttar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum. Sú fjárhæð nemur rúmum 10 ma.kr. og hækkar um 500 m.kr. frá í fyrra.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 11,7 ma.kr. og hækkar um 13,9% milli ára. Rétt er að vekja athygli á því að breytingin á milli ára er mjög mismunandi eftir tegundum fjármagnstekna. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fjölgar um 6,7% og eru þeir tæplega 42 þúsund. Gjaldendum hefur fækkað mikið síðan frítekjumark vaxta var tekið upp við álagningu 2011, en það nemur 100 þús.kr. á ári. Við álagningu 2010 voru gjaldendur skattsins um 183 þúsund.
  • Vextir eru stærsti einstaki liður fjármagnstekna og nema 30,4 ma.kr. sem er 0,5% aukning frá árinu áður. Vaxtatekjur eru nú rúmur fjórðungur þess sem þær voru árið 2009. Tekjur af arði nema 16,7 ma.kr. sem er 28,8% aukning frá fyrra ári og leigutekjur nema 9,1 milljarði sem er 20,7% aukning á milli ára. Athygli vekur að þeim sem hafa leigutekjur fækkar um 3,1% eða rúmlega 240 manns á milli ára.
  • Frumálagning auðlegðarskatts fer nú fram í fjórða sinn og endurálagning í þriðja sinn. Auðlegðarskattur var lagður á sem tímabundin aðgerð og rennur skv. lögum út um næstu áramót. Skatthlutfallið við álagningu 2013 er 1,5% af eign á bilinu 75-150 milljónir hjá einhleypum og 100-200 milljónir hjá hjónum en 2,0% af eign umfram þessi mörk. Auðlegðarskatt greiða nú 5.980 aðilar (um 3.100 fjölskyldur), alls tæplega 5,6 ma.kr., sem er 0,3% lækkun á milli ára. Viðbótarauðlegðarskattur á hlutabréfaeign var lagður á 4.988 gjaldendur og nam 3,5 ma.kr. sem er 44% aukning á milli ára. Samanlagt hækkar auðlegðarskattur um liðlega 13% milli ára.
  • Framtaldar eignir heimilanna námu 3.861 ma.kr. í lok síðasta árs og jukust um 6,9% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 2.679 ma.kr. að verðmæti, eða 69,0% af eignum,  og jókst verðmæti þeirra um 9,0% milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði lítillega á ný, eftir fækkun þrjú ár í röð.
  • Framtaldar skuldir heimilanna námu 1.785 ma.kr. í árslok 2012 og jukust um 1,5% á árinu. Til samanburðar drógust skuldir heimilanna saman um rúmlega 6% árið 2011. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.159 ma.kr. sem er 3,1% aukning milli ára. Eigið fé heimila í fasteign sinni er nú í heild tæplega 57% af verðmæti þeirra samanborið við tæplega 55% árið áður. Tæplega 26 þúsund af 94 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.
  • Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um rúm 12% á árinu 2012 og nam samtals 2.075 ma.kr. Aukningin nemur 7,5% að raungildi á mælikvarða vísitölu neysluverðs.
  • Útvarpsgjald nemur samtals 3,4 ma.kr. á árinu 2013.  Fjárhæð þess er 18.800 kr. á hvern framteljanda á aldrinum 16–69 ára sem greiðir tekjuskatt. Greiðendum útvarpsgjalds fjölgar um tæplega 1.900 milli ára. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals 1,8 ma.kr. og eru greiðendur þess þeir sömu og greiða útvarpsgjald.
  • Barnabætur hækka verulega milli ára og nema 10,1 ma.kr. sem er 36% aukning frá fyrra ári. Tæplega 57 þúsund fjölskyldur fá barnabætur sem er 9,5% fjölgun frá fyrra ári. Meðalfjárhæð bóta hækkar um tæplega 24% milli ára en bæði upphæðir barnabóta og tekjuviðmiðanir voru hækkaðar umtalsvert frá fyrra ári.
  • Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2012, nema 8,7 ma.kr. sem er 1,3% lækkun á milli ára. Almennar vaxtabætur fá 44.876 fjölskyldur og fækkar þeim um 3,3% á milli ára.
  • Hinn 1. ágúst verða greiddir 18,3 ma.kr. úr ríkissjóði til heimila. Þar er um að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 21,9 ma.kr., en 3,6 ma.kr. af henni verður ráðstafað upp í kröfur ríkissjóðs vegna vangoldinna gjalda. Útborgunin er sundurliðuð í meðfylgjandi töflu.
Deild
M.kr.
Barnabætur
2.670
Vaxtabætur
7.406
Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars
7.077
Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts
720
Annað
398
Alls
18.271
  • Endurgreiðsla á ofgreiddum sköttum er alls 7,8 ma.kr. sem er svipað og í fyrra. Barnabætur eru 35% meiri nú en í fyrra og almennar vaxtabætur 1,5% minni, og samtals hækka þessar greiðslur um 0,5 ma.kr. milli ára. Auk þess mun ríkissjóður greiða 2,7 ma.kr. í barnabætur í lokagreiðslu ársins 1. nóvember nk. Heildarútborgunin 1. ágúst lækkar um 2,1 ma.kr. sé miðað við árið 2012, þar sem sérstakar tímabundnar vaxtaniðurgreiðslur til skuldsettra heimila hafa fallið brott.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum