Hoppa yfir valmynd
12. júní 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staða ríkisfjármála verri en áður var áætlað

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fóru yfir stöðu og horfur í ríkisfjármálum
Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fóru yfir stöðu og horfur í ríkisfjármálum

Horfur í ríkisfjármálum fyrir árið í ár og næsta ár hafa verið endurmetnar. Þetta er gert í ljósi breytinga á mörgum meginforsendum þeirrar ríkisfjármálaáætlunar sem kynnt var síðastliðið haust. Eins og málin horfa núna og ef ekki verður fært að grípa til gagnráðstafana til að mæta lakari efnahagshorfum og veikleikum í ríkisrekstri það sem af er árinu gæti afkoman í reglubundinni starfsemi ríkissjóðs orðið orðið nálægt 14 milljörðum verri árið 2013 en fjárlög gera ráð fyrir.

Auk þess er hugsanlegt að afskrifa þurfi sem svarar til fyrirhugaðs 13 milljarða króna framlags til Íbúðalánasjóðs ef ekki rætist úr fjárhagsstöðu sjóðsins. Eins og fram hefur komið hefur rekstrarstaða sjóðsins verið að þyngjast og má búast við afskriftum vegna þess hjá ríkissjóði í reikningum ársins 2012. Komi til afskriftar sem svarar til framlagsins í ár gæti afkoma ríkissjóðs að óbreyttu orðið 27 milljörðum króna lakari á árinu 2013 en áætlað er í fjárlögum.

Blikur eru á lofti um að afkoma ríkissjóðs á næsta ári geti einnig orðið um 27 milljörðum króna lakari en gert var ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun sem lögð var fram sl. haust. Þetta kemur til af því að útlit er fyrir að  heildartekjur ríkissjóðs gætu orðið allt að 13 milljörðum króna lægri á árinu 2014 en reiknað var með í ríkisfjármálaáætluninni . Sömuleiðis eru nú horfur á að verði ekki gripið til ráðstafana í ríkisfjármálum geta útgjöld farið um 14 milljarða króna umfram fyrri áætlanir.

Þetta kom fram í kynningu forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra á horfum í ríkisfjármálum á blaðamannafundi í dag.

Tekjur og gjöld aukist

Frá því að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 og ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2013-2016 voru kynnt í september sl. hafa orðið breytingar á tekju- og útgjaldahorfum ríkissjóðs og efnahagshorfum almennt.

Bæði jukust tekjur og útgjöld við meðferð Alþingis á fjárlagafrumvarpinu. Fjármögnun á auknum útgjöldum byggðist hins vegar að stórum hluta á óreglulegum tekjum s.s. arðgreiðslum. Nú er t.d. útlit fyrir að arðgreiðslur verði 4 milljörðum króna lægri á næsta ári en áætlað er í ár samkvæmt fjárlögum.Þá hafa verið teknar nýjar ákvarðanir eftir samþykkt fjárlaga sem geta haft talsverð áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Ennfremur liggur fyrir ef horft er til hagvísa sl. mánuði, að efnhagshorfur eru umtalsvert dekkri en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2013.  Nefna má að hagvöxtur á síðasta ári er talinn hafa verið 1,6% í stað 2,7% eins og fjárlög gerðu ráð fyrir. Þá er gert ráð fyrir 1,9% hagvexti á þessu ári í stað 2,5%.

Kynning á stöðu og horfum í ríkisfjármálum

Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fóru yfir stöðu og horfur í ríkisfjármálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum