Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Drög að frumvarpi um fjármálastöðugleikaráð

Drög að frumvarpi um fjármálastöðugleikaráð hafa verið lögð fram til umsagnar á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Frumvarpið var unnið af nefnd sem skipuð var af fjármála- og efnahagsráðherra í desember síðastliðnum.

Í nefndinni sátu Tryggvi Pálsson, hagfræðingur, formaður, Haraldur Steinþórsson, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Kjartan Gunnarsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Guðrún F. Þórðardóttir, staðgengill yfirlögfræðings, tilnefnd af Fjármálaeftirlitinu, og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Seðlabanka Íslands. Varamenn þeirra voru Lilja Sturludóttir, lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Valgerður Rún Benediktsdóttir, skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Ragnar Hafliðason, ráðgjafi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, og Sigríður Logadóttir, aðallögfræðingur Seðlabankans. Ritari nefndarinnar var Steindór G. Jónsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Nefndinni var falið að gera tillögur um stofnun fjármálastöðugleikaráðs á grundvelli núverandi stofnanauppbyggingar, þ.e. aðkomu fjármála- og efnahagsráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Leitast er við að tryggja samfellu í eindareftirliti og þjóðhagsvarúðareftirliti.

Tilgangur frumvarpsins er að efla og varðveita fjármálastöðugleika í almannaþágu með því að fela sérstöku ráði, fjármálastöðugleikaráði, skilgreind verkefni og heimildir í samræmi við evrópskar og aðrar alþjóðlegar fyrirmyndir, tillögur í nýlegum skýrslum um fjármálakerfið,umgjörð fjármálastöðugleika á Íslandi og íslenska lögskipan.

Nefndir, skipaðar af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, hafa samhliða störfum fyrrgreindrar nefndar unnið að smíði frumvarpa sem jafnframt er ætlað að efla fjármálastöðugleika og kunna að hafa áhrif á meðfylgjandi frumvarpsdrög sem hér eru til umsagnar.  Þar er um að ræða innleiðingu evrópskra eiginfjárreglna (CRD IV/CRR), smíði frumvarps um veitingu veðlána sem tryggð eru í húsnæði, sem einnig byggir á evrópskum reglum, og frumvarps um afmörkuð efni laga um fjármálafyrirtæki, þ.e. skilameðferð, eiginfjárkröfur, millibankaviðskipti og tengsl skilameðferðar og ákvæða um innlánstryggingar.  Þeirri nefnd er raunar jafnframt ætlað að gaumgæfa hugmyndir að mögulegum aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingarbanka.

Helstu breytingar og nýmæli frumvarpsdraganna eru eftirfarandi:


  • Fjármálastöðugleikaráð sé vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfingar viðbúnaðar við fjármálakreppu. Ráðið stofni til umræðu, komi með ábendingar eða beini tilmælum, en raski ekki valdheimildum þar til bærra stofnana um aðgerðir.
  • Greining á kerfisáhættu og viðbrögð stjórnvalda við óróa á fjármálamörkuðum eða ógnun við fjármálastöðugleika byggi á skýrum ákvæðum laga og sé framför frá núverandi fyrirkomulagi sem felst í starfi nefndar um fjármálastöðugleika og samstarfssamningi Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins.
  • Ákvæði laga um hlutverk og dreifingu verkefna milli stofnana séu skýr. Samhengi sé á milli markmiða, tækja og ábyrgðar þannig að sú stofnun sem tekur ákvörðun um beitingu tækja sé jafnframt sú sem ber ábyrgð á því að markmiðið náist.
  • Sá ráðherra sem fer með hagstjórn sé leiðandi í starfi fjármálastöðugleikaráðs. Seðlabanki Íslands hafi formennsku í kerfisáhættunefnd ráðsins. Fjármálaeftirlitið stuðli að fjármálastöðugleika í störfum sínum.
  • Fjármálastöðugleikaráð sé skipað þeim ráðherra sem fer með fjárreiður ríkissjóðs og fjármál (formaður), þeim ráðherra sem fer með málefni fjármálamarkaða, seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins.
  • Undir fjármálastöðugleikaráði starfi kerfisáhættunefnd sem skipuð sé seðlabankastjóra (formaður), forstjóra Fjármálaeftirlitsins, aðstoðarseðlabankastjóra og einum fulltrúa sem tilnefndur er af forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Ráðuneytisstjórar eða embættismenn sem þeir tilnefna úr ráðuneytum sem fara með málefni fjárreiða ríkisins og fjármála sem og málefna fjármálamarkaðar séu fulltrúar án atkvæðisréttar. Nefndin nýti sameiginlega greiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins á kerfisáhættu, fjalli um samræmda beitingu stýritækja þessara stofnana sem lúta að fjármálastöðugleika og geri tillögur til fjármálastöðugleikaráðs um aðgerðir annarra stjórnvalda. Seðlabankinn sjái um vistun þessarar vinnu, skráningu og skjölun.
  • Gagnsæi gangvart Alþingi og almenningi sé aukið frá því sem nú er.

Samstaða er í nefndinni um nauðsyn þess að koma á fót fjármálastöðugleikaráði. Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið eiga eftir að taka afstöðu til frumvarpsdraganna.

Þeir sem óska eftir því að koma á framfæri athugasemdum við frumvarpsdrögin geta gert það með því að senda tölvupóst á netfangið [email protected], með orðunum „fjármálastöðugleikaráð 2013“ í fyrirsögn. Einnig er hægt að koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið með hefðbundnum bréfpósti.

Síðasti dagur til að skila umsögn er mánudagurinn 26. ágúst 2013. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi haustið 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum