Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ráðgjöf AGS mun áfram standa til boða

Frá fundi með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Frá fundi með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Nemat Shafik, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir sjóðinn stoltan af þeim árangri sem náðst hefði á Íslandi og bætti við að Íslendingar mættu sjálfir vera stoltir enda hafi þeir lagt á sig erfiðið. Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, fundaði með Shafik í Washington, þar sem hún sótti vorfund AGS og Alþjóðabankans.

„Ég er ánægð með að á fundi okkar staðfesti Shafik að af hálfu AGS er fullur vilji til að bjóða íslenskum stjórnvöldum áfram sérfræðiráðgjöf, bæði hvað varðar losun fjármagnshafta og í ríkisfjármálunum, bæði vegna fjárlaga og nýrra fjárreiðulaga, þótt til standi að loka sendiskrifstofunni í Reykjavík,” segir Katrín Júlíusdóttir. Ísland þykir um margt sérstakt tilfelli og augljóst að af hálfu AGS er líka litið á samstarfið sem lærdómsferli. Óvenjulegt er að á Íslandi voru frjálsir fjármagnsflutningar og fljótandi gengi þar til sett voru ströng gjaldeyrishöft sem síðan stendur til að losa svo fljótt sem auðið er.

Katrín segir að á fundnum hafi einnig komið fram hve mikilvægt það er að mati AGS að þverpólitísk samstaða náðist um að breyta lögum um gjaldeyrismál þannig að losun fjármagnshafta er ekki lengur bundin við dagsetningu. Af hálfu sjóðsins er lögð áhersla á að búa ekki til tímapressu heldur vanda undirbúning.

Ein af mögulegum ógnum við áframhaldandi árangur Íslands á leið út úr samdráttarskeiðinu í kjölfar bankahrunsins er veikari hagvöxtur víða um heim en einkum í Evrópu. Á fundi fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lagði Christine Lagarde, framkvæmdastjóri sjóðsins, sérstaka áherslu á mikilvægi þess að örva vöxt og skapa störf, ekki síst fyrir ungt fólk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum