Hoppa yfir valmynd
14. mars 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samningur um eflingu nýsköpunar í opinberum rekstri

Ásta Möller, forstöðumaður Stjórnsýslustofnunar, Katrín Júlíúsdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og Ómar Kristmundsson, formaður stjórnar Stjórnsýslustofnunar
Ásta Möller, forstöðumaður Stjórnsýslustofnunar, Katrín Júlíúsdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og Ómar Kristmundsson, formaður stjórnar Stjórnsýslustofnunar.

Katrín Júlíusdóttir fjármála- og efnahagsráðherra og Ómar H. Kristmundsson, formaður stjórnar Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, undirrituðu í dag samning til tveggja ára um eflingu nýsköpunar í opinberum rekstri. 

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að með samningnum sé verið styrkja þann vettvang sem orðið hefur til í farsælu samstarfi ráðuneytisins við Stjórnsýslustofnun og fleiri aðila á síðastliðnum árum. „Sífellt þarf að bæta og efla þjónustu, verklag og aðferðir í takt við kröfur og þarfir samfélagsins á hverjum tíma. Það er mikil metnaður hjá ríkinu að gera betur og því mikilvægt að skapa þannig umhverfi að stofnanir geti tekið næstu skref með nýsköpun að leiðarljósi.“ segir Katrín.

Meginmarkmið samningsins eru að:

  • bæta nýtingu og meðferð almannafjár með því að styðja við og stuðla að nýsköpun í opinberum rekstri.
  • auka getu stofnana til að efla þjónustu við almenning með því að bæta hæfni og þekkingu innan ríkisstofnana og ráðuneyta á sviði nýsköpunar.
  • stuðla að auknu samstarfi á sviði nýsköpunar á milli ríkisstofnana og aðila á einkamarkaði.
  • styðja við rannsóknir og þróun nýsköpunar á Íslandi.

Meðal þess sem gert verður til að ná fram markmiðum samningins er aukið samstarf við erlenda og innlenda aðila á sviði nýsköpunar í opinberum rekstri.  Unnið verður að því að efla tengsl og þekkingarmiðlun á sviði nýsköpunar á milli ríkisstofnana og aðila á einkamarkaði.  Stutt verður við rannsóknir á stjórnunaraðferðum með hliðsjón af nýsköpun og þróun hins opinbera.  Auk þess verður markviss upplýsingamiðlun á netinu um nýsköpun, ráðstefnur og málþing verða haldin auk námskeiða o.fl.

Stefna fjármála- og efnahagsráðuneytisins er að vera miðstöð nýsköpunar í ríkisrekstri.  Undanfarin ár hefur ráðuneytið í samvinnu við Stjórnsýslustofnun, Félag forstöðumanna ríkisstofnana, Samband íslenskra sveitarfélaga, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og RANNÍS unnið að því að efla nýsköpun í opinberum rekstri.  Þetta hefur verið m.a. gert með ráðstefnuhaldi, nýsköpunarverðlaunum og opnun upplýsingagáttar þar sem margvíslegar upplýsingar um nýsköpun í opinberum rekstri má finna, sjá www.nyskopunarvefur.is.

90% stofnana stunda nýsköpun

Nýsköpun í opinberum rekstri á Íslandi er töluverð.  Í norrænni rannsókn sem gerð var árið 2010 kemur fram að um 90% opinberra stofnana á Íslandi stundi nýsköpun af einhverju tagi, sem er ívið hærra hlutfall en á hinum Norðurlöndunum.  Í niðurstöðum könnunar á viðhorfum forstöðumanna ríkisstofnana árið 2011 kemur fram að 64% forstöðumanna telja sérstaklega mikilvægt að öðlast meiri færni í aðferðum til nýsköpunar í  opinberum rekstri og fékk þetta efni hæstu einkunn forstöðumanna.  Þetta bendir til þess að mikil áhugi sé til staðar hjá forstöðumönnum í ríkisrekstri til að takast á við og þróa frekar nýsköpunarverkefni.  Fjármála- og efnahagsráðuneytið stefnir að því að mæta þessari þörf á komandi árum.

Samningur um eflingu nýsköpunar í opinberum rekstri.

Ásta Möller, forstöðumaður Stjórnsýslustofnunar, Katrín Júlíúsdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og Ómar Kristmundsson, formaður stjórnar Stjórnsýslustofnunar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum