Hoppa yfir valmynd
7. mars 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Helstu verkefni Fjársýslunnar árið 2013

Útfærsla markmiða um rafræna stjórnsýslu og aukna sjálfsafgreiðslu almennings er meðal þess sem fjallað er um í verkefnaáætlun Fjársýslu ríkisins fyrir árið 2013.

Fjársýsla ríkisins er ein tólf stofnana fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hlutverk Fjársýslunnar er að samræma ríkisaðila og tryggja tímanlegar og áreiðanlegar upplýsingar um fjármál ríkisins. Jafnframt ber stofnuninni að stuðla að öruggri og skilvirkri greiðslumiðlun fyrir ríkissjóð. Svið Fjársýslunnar eru sjö talsins; bókhaldssvið, launasvið, ríkisfjárhirsla, tekjusvið, uppgjörssvið, rekstrarsvið og tæknisvið.

Í verkefnaáætlun Fjársýslunnar fyrir 2013  er m.a. fjallað um verkefni sem tengjast markmiðum um rafræna stjórnsýslu og aukna sjálfsafgreiðslu almennings.  Þar kemur fram að ákveðið hafi verið að miðla skjölum frá Tekjubókhaldskerfi ríkisins til einstaklinga og lögðaðila og skapa borgaranum leið til að nálgast gögn í tekjubókhaldskerfinu í gegnum Island.is. Samningur verður gerður við Island.is í þessu skyni og sett upp vefþjónusta til samskipta á milli tekjubókhaldskerfisins og Island.is.  

Byrjað verður á að birta skjöl með upplýsingum sem eiga að birtast á skattframtali.  Má þar nefna áramótastöðu gjaldenda, skuldir og inneignir, áfallna dráttarvexti og inneignarvexti og fjármagnstekjuskatt af þeim á tekjuári og greiddan erfðafjárskatt. Þá verður unnt að ná í greiðsluseðla, innheimtubréf, barna- og vaxtabótatilkynningar, greiðslu- og skuldajafnaðarkvittanir ofl.  Þá munu skattgreiðendur geta náð í upplýsingar um stöðu sína á hverjum tíma og hreyfingayfirlit í öllum gjaldflokkum.  Ennfremur er fyrirhugað að gjaldandi geti afþakkað pappír og gefið upp bankareikning til leggja inn á ofgreiðslur á sköttum og gjöldum og bætur til bótaþega. Þá er ætlunin að auka þjónustu við sveitarfélög með skjalabirtingu á ýmsum uppgjörsgögnum og yfirlitum í gegnum Island.is, að því er segir í verkefnaáætlun Fjársýslunnar.

Rafrænir reikningar og rafrænt samþykktarferli

Meðal annarra markmiða í starfi Fjársýslunnar á árinu 2013 er að vinna markvisst að því að koma öllum stofnunum sem eru í greiðsluþjónustu inn í ferli rafrænna reikninga og jafnframt að þær taki í notkun rafrænt samþykktarferli á árinu.  

Með notkun rafrænna reikninga gjörbreytist vinnuferli. Í stað þess að pappírsreikningur sé sendur stofnun eða ráðuneyti sem stimplar hann og samþykkir með áritun á hvern reikning, áður en hann er sendur greiðsluþjónustu Fjársýslunnar, fari rafrænn reiknngur beint þangað. Fjársýslan yfirfer og/eða bætir við bókunarlínum og sendir síðan rafrænt til viðkomandi stofnunar  til samþykktar. Stofnunin yfirfer reikninginn á rafrænu formi og samþykkir hann eða hafnar eftir atvikum. Eftir samþykki stofnunar verður reikningurinn tilbúinn til greiðslu hjá Fjársýslunni á gjalddaga. Allt ferli rafræns reiknings er geymt á rafrænu formi, bókanir, samskipti og samþykktir, dagsetningar og af hverjum hann er samþykktur, segir m.a. í verkefnaáætlun Fjársýslunnar.

Verkefnaáætlun Fjársýslu ríkisins fyrir 2013

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum