Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Helstu áherslur Hagstofunnar 2013

Hagstofa Íslands lagði nýlega fram starfsáætlun fyrir árið 2013, þar sem greint er frá helstu áherslum í starfi stofnunarinnar.

Hagstofa Íslands er ein þeirra tólf stofnana sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Stofnunin skiptist í fjögur svið; efnahagssvið, fyrirtækjasvið, félagsmálasvið og þjónustu- og þróunarsvið.

Á efnahagssviði snúast áhersluverkefni ársins um uppbyggingu á umhverfistölfræði um úrgang og nytjavatn, endurbótum þjóðhagsreikninga 2012-2015 og uppgjör búreikninga. Þá er unnið að öflun upplýsinga um skuldir heimila og fyrirækja í samræmi við óskir stjórnvalda og Alþingis um tíðari upplýsingar, að því er fram kemur í áætlun sviðsins.

Fyrirtækjasvið Hagstofunnar, sem vinnur fyrirtækjatölfræði með markvissum hætti, vinnur á árinu að undirbúningi að fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar, Þar verða m.a. upplýsingar um fjölda starfsmanna, sem og veltu fyrirtækja. Einnig verða upplýsingar um
innlenda og fjölþjóðlega fyrirtækjahópa, auk upplýsinga um eignarhald. Fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar verður öflugt verkfæri til að greina lýðfræði fyrirtækja, s.s. stofnun, lok, samruna og uppskiptingar, segir í starfsáætluninni.

Á félagsmálasviði Hagstofunnar eru teknar saman upplýsingar um laun, tekjur, menntamál og fjölmiðla- og menningarmál. Í starfsáætlun sviðsins kemur m.a. fram að á árinu sé áætlað að birta meðallaun, bæði heildartölur og eftir atvinnugreinum, sem nær bæði til hins opinbera og almenna markaðarins. Á fyrsta ársfjórðungi 2013 er áætlað að birta aukið niðurbrot á launaþróun hins opinbera, þ.e. niður á stjórnsýslustig.

Þjónustu- og þróunarsvið Hagstofunnar nær til innviða eins og upplýsingatækni, miðlunar, upplýsingaþjónustu, gagnasöfnunar, framkvæmd úrtaksrannsókna, aðferðafræði og gæðamála. Á árinu 2013 verður aukin áhersla á gæðastjórnun, aðferðir, lýsigögn, skilvirkari gagnasöfnun, aukið kynningarstarf, endurbættan vef og endurskipulagningu innri kerfa. Áhersla er lögð á að styðja við þróunarverkefni Hagstofunnar, segir í starfsáætluninni.

Nánar um verkefni Hagstofu Íslands í starfsáætlun ársins 2013.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum