Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Konur um þriðjungur forstöðumanna hjá ríkinu

Konur eru 33% af fjölda forstöðumanna ríkisins, en hlutfallið var 31% á árinu 2011. Þetta kemur fram í kynjabókhaldi forstöðumanna 2012 sem birt er í nýju fréttabréfi stjórnenda ríkisstofnana.

Bókhaldið sýnir m.a. að hlutfall kvenna í stöðum forstöðumanna hefur aukist úr 25% í 33% á milli 2008 og 2012. Á sama tímabili hefur forstöðumönnum fækkað. Milli 2011 og 2012 fækkaði þeim um þrjá.

Fækkunina má rekja til sameiningar ráðuneyta í september 2012. Þá voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti sameinuð í eitt ráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti. Undir atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti heyra nú 14 stofnanir en áður heyrðu 20 stofnanir undir þessi þrjú ráðuneyti. Ráðuneytisstjórum fækkaði um tvo og heilsugæslan á Dalvík tilheyrir nú Heilbrigðisstofnuninni a Siglufirði.

Einnig varð nokkur tilflutningur á stofnunum milli ráðuneyta. Undir fjármála- og efnahagsráðuneytið fluttust tvær stofnanir, Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands sem áður heyrðu undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti fluttust tvær stofnanir, Veiðimálastofnun sem áður heyrði undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Íslenskar orkurannsóknir sem áður heyrði undir iðnaðarráðuneyti.


Taflan sýnir fjölda forstöðumanna 2012 (þ.m.t. ráðuneytisstjóra) eftir ráðuneytum og hlutfall kvenna eftir hverju ráðuneyti fyrir sig.

Eining
Karlar
Konur
Samtals
Hlutfall kvenna
Forsætisráðuneyti 1 2 3 67%
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti 10 4 14 29%
Fjármála- og efnahagsráðuneyti 12 1 13 8%
Innanríkisráðuneyti 33 13 46 28%
Mennta- og menningarmálaráðuneyti 25 29 54 54%
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 15 1 16 6%
Utanríkisráðuneyti 2 0 2 0%
Velferðarráðuneyti 22 9 31 29%
Öll ráðuneyti 120 59 179 33%

Hér má sjá þróun á kynjaskiptingu forstöðumanna ríkisins síðustu fimm árin.

Forstodumenn_kyn_022013

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum