Hoppa yfir valmynd
21. desember 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Færeyingum sýnt þakklæti í verki

Faereyjafundur
Faereyjafundur

Íslenska ríkið greiddi í vikunni upp lán sem Færeyingar veittu Íslendingum í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Færeyingar voru fyrsta þjóðin sem bauðst til að lána Íslandi eftir hrunið í október 2008. Stjórnvöld vilja sýna þakklæti í verki með því að efla enn frekar samstarf og tengsl Færeyja og Íslands.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag að leggja fjórar milljónir króna af ráðstöfunarfé sínu til að standa fyrir kostnaði við ráðstefnu í febrúar 2013 um samstarfsmöguleika í atvinnu- og nýsköpunarmálum.

Færeyingar buðust til þess á fundi Norðurlandaráðs í Helsinki í október 2008 að lána Íslendingum 300 milljónir danskra króna.  Þann 23. mars 2009 var undirritaður lánssamningur milli Landsstjórnar Færeyja og íslenska ríkisins, þess efnis að Landsstjórn Færeyja lánaði íslenska ríkinu 300 milljónir danskra króna, jafngildi um 6,6 milljarða íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Lánið var veitt í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda sem studd var af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta var fyrsta tvíhliða lánið til Íslands af þessu tagi, en síðar sama ár voru undirritaðir lánssamningar við Danmörk, Finnland, Noreg, Svíþjóð og Pólland. Þetta lán Færeyinga þótti sýna mikið vinarþel og Íslendingar tóku því með þakklæti.

Ráðstefna í febrúar

Öll lánin voru nýtt til styrkingar gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands. Lánið frá Færeyjum var greitt upp í þessari viku. Í framhaldi af skuldabréfaútgáfum ríkissjóðs á alþjóðlegum mörkuðum hafa um 60% af lánum hinna Norðurlandanna verið forgreidd fyrr á þessu ári. Forgreiðsla til Færeyja er því í takti við forgreiðslur til annarra Norðurlanda, en samkvæmt lánssamningi átti að hefja endurgreiðslur árið 2013.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra vilja fyrir hönd íslenskra stjórnvalda sýna Færeyingum þakklæti í verki og efla enn frekar samstarf og tengsl Færeyja og Íslands. Því er lagt til að í febrúar verði haldin ráðstefna þar sem fjallað verði um frekari möguleika landanna til samstarfs í  atvinnu- og nýsköpunarmálum. Ráðstefnan verði haldin í Færeyjum eða Íslandi.

Faereyjafundur

Jørgen Niclasen og Katrín Júlíusdóttir

Katrín Júlíusdóttir, fjármála og efnahagsráðherra, fundaði í dag með starfsbróður sínum frá Færeyjum, Jørgen Niclasen. Að loknum fundinum færði hún ráðherranum að gjöf teppi frá hönnuðinum Vík Prjónsdóttur.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum