Hoppa yfir valmynd
7. desember 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aukin hollusta markmið með breytingum á vörugjöldum

Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á vörugjöldum og tollalögum.  Breytingunum er ætlað að koma á hagrænum hvötum sem beina neyslu í átt til aukinnar hollustu.

Í frumvarpinu er að finna umtalsverðar breytingar, bæði hvað varðar þá vöruflokka sem bera vörugjald og framkvæmd við álagningu gjaldsins.  Því er ætlað að afla ríkissjóði 800 m.kr. tekna umfram það sem vörugjöld gera nú. Er það í samræmi við tekjuöflunaráform sem kynnt hafa verið í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013.

Í frumvarpinu er meðal annars kveðið á um að álagningu vörugjalda á matvæli verði breytt. Aukin gjaldtaka verður á efni sem æskilegt er að takmarka neyslu á. Þá er lagt til að gjaldtakan verði í réttu hlutfalli við viðbættan sykur eða ígildi hans í sætuefnum.

Hreinir ávaxtasafar án vörugjalda

Fram til þessa hafa gjöldin lagst af jafnmiklum þunga á gosdrykki og hreina ávaxtasafa. Þá hafa sumar vörur með miklum viðbættum sykri  ekki borið vörugjald. Með samþykkt þessa frumvarps  munu sykraðar mjólkurvörur og morgunkorn bera vörugjald í hlutfalli við sykurinnihald en það hafa þær ekki gert hingað til. Vörur sem ekki innihalda viðbættan sykur, svo sem hreinir ávaxtasafar og bragðbætt vatn munu ekki bera vörugjald, sem nú er lagt á þessar vörur.

Þessar tillögur byggja á rannsóknum sem sýna að margir Íslendingar, og sérstaklega ungt fólk, neytir of mikils sykurs miðað við það sem æskilegt er talið. Jafnframt benda rannsóknir til þess að hægt sé að breyta neysluvenjum með hagrænum hvötum. Þörfin er brýn til þess að snúa af þeirri braut að meðal Norðurlandabúa er hæst hlutfall fólks sem þjáist af offitu á Íslandi. Þá er tannheilsa íslenskra ungmenna mun lakari en hjá jafnöldrum þeirra  á Norðurlöndunum.

Samræmi í álagningu aukið með breyttum gjöldum

Í frumvarpinu er jafnframt að finna tillögur um að vörugjaldi verði breytt hvað varðar vörur aðrar en matvæli. Markmiðið er að skapa aukið samræmi í álagningu gjaldanna, en tillögurnar byggjast á niðurstöðum starfshóps sem fjallaði um efnið.
 Lagt er til að  vörugjald verði fellt niður af smærri raftækjum til heimilisnota, s.s. samlokugrillum og hraðsuðukötlum, til samræmis við raftæki sem gegna svipuðu hlutverki, en eru án vörugjalds í dag. Jafnframt er lagt til að vörugjöld verði felld niður af varmadælum og öryggisbúnaði ökutækja. Til samræmingar er einnig lagt til að vörugjöld verði sett á nuddbaðkör og nuddpotta en sambærilegar vörur án nudds bera í öllum tilvikum vörugjald.

Gegnsærra kerfi

Samkvæmt gildandi lögum annast ríkisskattstjóri álagningu vörugjalds á innlendar framleiðsluvörur, auk skráninga og útgáfu vörugjaldsskírteina gagnvart þeim aðilum sem flytja inn vörur án vörugjalds eða fá það endurgreitt. Tollstjóri annast aftur á móti álagningu gjaldsins á innfluttar vörur auk innheimtu þess.

Í frumvarpinu er lagt til að álagning gjaldsins bæði á innflutning og innlenda framleiðslu verði á einni hendi, þ.e. hjá tollstjóra, og skráning og útgáfa vörugjaldsskírteina sömuleiðis. Með þessari breytingu er leitast við að skapa heildarsýn yfir alla þætti kerfisins samhliða meira samræmi í álagningu gjaldanna, auk þess að gera kerfið gegnsærra, bæði gagnvart gjaldendum og álagningaraðilanum. 

Þá er er í frumvarpinu kveðið á um það að skil á vörugjaldi innlendra framleiðenda matvæla geti farið fram í gegnum kaup á vörugjaldsskyldum aðföngum í stað þess að vörugjald sé lagt á framleiðsluna sjálfa. Þannig geta innlendir framleiðendur losnað við skýrsluskil, rekstur tölvukerfa og annað umstang við skil á gjaldinu. Innflytjendum matvæla er jafnframt gert kleift að tilgreina á tollskýrslu nákvæmt hlutfall viðbætts sykur eða sætuefnainnihald vöru og greiða gjald í samræmi við það.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum