Hoppa yfir valmynd
30. október 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hlaut nýsköpunarverðlaunin 2012

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hlaut nýsköpunarverðlaunin í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2012, en verðlaunin voru í dag afhent í annað sinn.

Verðlaunin voru afhent á ráðstefnu á Grand hótel. Í ár voru 62 verkefni frá 31 stofnun og 11 sveitarfélögum tilnefnd  til nýsköpunarverðlauna.  Verðlaunin til Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra voru veitt vegna verkefnisins “SignWiki”. Verkefnið er upplýsingakerfi og þekkingarbrunnur þar sem táknmálsorðabók og táknmálsnámi er miðlað í tölvur, spjaldtölvur og síma. Þetta er ný nálgun sem byggir á opinni og virkri þátttöku þar sem málsamfélagið og áhugafólk um táknmál eru þátttakendur og leggja til námsefni og tákn.  SignWiki nýtist sem orðabók, til kennslu og í samskiptum við heyrnarlausa, fyrir almenning og til rannsókna og hefur gjörbreytt aðgengi að táknmáli og  miðlun þess. 

Fimm önnur verkefni fengu sérstakar viðurkenningar fyrir nýsköpun.  Það voru Blindrabóksafn Íslands fyrir “Librodigital”, Orkustofnun fyrir “Varmadæluvefur”, Öldrunarheimili Akureyrar fyrir “Hænsnahöllin”, Reykjavíkurborg fyrir “Betri Reykjavík” og Sjúkratryggingar Íslands fyrir “Réttindagátt - gagnagátt”.

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands ávarpaði ráðstefnuna. Jakob Schjörring, sérfræðingar hjá Mindlab í Danmörku fjallaði um aðferðafræði við nýsköpun í opinberum rekstri sem byggir á samstarfi við notendur þjónustunnar.  Inga Jóna Jónsdóttir, dósent við viðskiptafræðideild HÍ kynnti nýjar lausnir í opinberri starfsemi og fjallaði um stjórnunarlegar athafnir sem skila árangri.  Að lokum ræddi Svana Helen Björnsdóttir, forstjóri Stika og formaður Samtaka iðnaðarins um opnun nýja leiða til nýsköpunar í samstarfi opinberra aðila og einkaaðila.Forseti Íslands afhenti nýsköpunarverðlaunin 2012

 Á myndinni sjást verðlaunahafar ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands og Halldóri Halldórssyni, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga. Finna má nánari upplýsingar um öll verkefnin sem tilnefnd voru til nýsköpunarverðlaunanna í ár ásamt öðru fróðlegu efni um nýsköpun í opinberum rekstri á vefsíðunni http://www.nyskopunarvefur.is/


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum