Hoppa yfir valmynd
22. október 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðferðir mannauðsstjórnunar hafa fest sig í sessi

Aðferðir mannauðsstjórnunar hafa fest sig í sessi hjá forstöðumönnum ríkisstofnana. Þetta má lesa úr niðurstöðum könnunar meðal forstöðumanna stofnana sem nú hafa verið kynntar.
Könnunin  var samstarfsverkefni starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félags forstöðumanna ríkisstofnana.

Könnunin var gerð í tveimur hlutum og var fyrri hluti hennar kynntur vorið 2012. Þar var meðal annars horft til þátta eins og  menntunar forstöðumanna og fyrri starfa viðhorfi til eigin starfs og launa, upphafs starfs og starfsþróunar, stjórnunarhátta og ímynd stofnunar. Í seinni hlutanum, sem kynntur var fyrr í þessum mánuði, voru m.a. könnuð atriði á borð við fyrirkomulag starfsmannamála hjá stofnunum ríkisins, ráðningar, starfsmannastamtöl, starfsþróun og verkefni forstöðumanna. 

Fram kemur í könnuninni, sem framkvæmd var í lok árs 2011, að meirihluti ríkisstofnana nýtir niðurstöðu kannanna meðal starfsfólks og viðskiptavina stofnana þegar starfsmannastefna er mótuð. Alls nota 60% stofnana starfsmannakannanir og vinnustaðagreiningar mikið eða talsvert mikið við mótun starfsmannastefnu. Í sambærilegri könnun árið 2007 sögðust um 32% forstöðumanna ríkisstofnana nýta slíkar kannanir við mótun starfsmannastefnu.
Þá gefur könnunin vísbendingar um að skrifleg starfsmannastefna hafi fest sig í sessi. Um 80% ríkisstofnana hafa skriflega starfsmannastefnu, sem er 17% aukning frá 2007
Forstöðumenn horfa í auknum mæli til fleiri þátta við mótun starfsmannastefnu. Nú nýta um 20% stofnana viðhorfskannanir meðal viðskiptavina í þessu skyni, en um 10% gerðu slíkt hið sama árið 2007.

Í könnuninni kemur fram að starfsmannasamtöl eru orðin algengari sem aðferð við mannauðsstjórnun. Hjá um 60% stofnana fara fram formleg starfsmannasamtöl milli stjórnenda og starfsfólks einu sinni á ári eða oftar, sem er 10% aukning frá árinu 2007.
Ekki hefur orðið breyting á því hvort stofnanir leita til ráðningarskrifstofa vegna auglýsinga um laus störf. Um 30% stofnana hafa á undanförnum tveimur árum leitað til ráðningarskrifstofa vegna slíks. Hátt í 80% ríkisstofnana nota þessa aðferð sjaldan eða aldrei.

Fram kemur í könnuninni að hjá um sex af hverjum tíu stofnunum séu til starfslýsingar fyrir alla almenna starfsmenn. Þó gefa niðurstöðurnar til kynna að dregið hefur úr notkun starfslýsinga hjá æðstu stjórnsýslu. Þar eru nú í um helmingi tilfella til starfslýsingar fyrir allan starfshópinn, en voru 75% árið 2007.

Ennfremur kemur fram í niðurstöðum könnunarinnar að færri forstöðumenn ríkisstofnana telja nú að laun taki mið af frammistöðu, en gerðu í sambærilegri könnun árið 2007. Nú telja um 40% forstöðumanna að svo sé en voru um 60% í fyrri könnun. Mest breyting hefur orðið í þessa veru hjá æðstu stjórnsýslu, en 30% forstöðumanna þeirra stofnana telja að laun séu tengd frammistöðu. Árið 2007 svöruðu allir forstöðumenn því þannig til að þeir teldu að laun væru tengd frammistöðu.

Samskipti við ráðuneyti mikilvæg

Forstöðumenn flestra ríkisstofnana, eða um 90%, telja samskipti við það ráðuneyti sem stofnunin tilheyrir mjög mikilvæg. Misjafnt er eftir verkefnum hversu oft samskipti eru höfð við ráðuneyti. Þannig hafa um 60% stofnana hafa mánaðarlega eða oftar samskipti við ráðuneyti vegna faglegra verkefna stofnana. Sama hlutfall hefur hins vegar sjaldnar en mánaðarlega samskipti við ráðuneytið sem þær tilheyra vegna breytinga á skipulagi stofnunarinnar.

Könnun á starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum