Hoppa yfir valmynd
3. júlí 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fundur fjármálaráðherra Norðurlandanna í Osló 2. júlí sl.

Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra sat í gær fund norrænu fjármálaráðherranna í Osló. Á fundinum ræddu ráðherrarnir ástand og horfur í efnahagsmálum í löndunum og þar kom fram að hvergi er meiri hagvöxtur á Norðurlöndunum en hér á landi um þessar mundir og landið er komið á vaxtarbraut á nýjan leik. Ráðherrar fjármála og efnahagsmála hafa áhyggjur af þeirri óvissu sem ríkt hefur um framvinduna í Evrópusambandinu og ræddu um síðustu ákvarðanir sem teknar hafa verið á vegum sambandsins til að ráða fram úr þeim mikla vanda sem álfan er að glíma við. Norðurlöndin öll eru þó mun betur sett en löndin í sunnanverðri álfunni.

Ráðherranefndin hafði látið hóp sérfræðinga fjalla um fyrirhugaða innleiðingu nýrra reglna um eigið fé fjármálastofnana í Evrópusambandinu og á EES svæðinu, s.k. CRD IV reglur sem byggja á Basel III og var skýrslan til umfjöllunar á fundinum. Skýrsluna sjálfa er að finna hér. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að Norðurlöndin hafi samstarf á þessu sviði enda eru fjármálamarkaðir landanna nátengdir og öll Norðurlönd hafa gengið í gegn um stór áföll í fjármálakerfum sínum þótt á mismunandi tíma sé. Eru fjármálaeftirlit landanna hvött til þess að kynna sér þær ráðleggingar sem sérfræðinga­hópur­inn gerir.

Á fundinum var kynnt næsta tölublað af tímaritinu Nordic Economic Policy Review sem gefið er út á vegum ráðherranefndarinnar. Umfjöllunarefni tölublaðisins er hagfræði menntunar og mikilvægi hennar fyrir hagvöxt. Þessi kynning og undirliggjandi rannsóknir eru afar áhugaverðar og mikilvægar við stefnumótun um þróun samfélaga. Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra benti á  að þegar endurstilla þurfi samfélag eftir djúpa efnahagslægð, eins og Íslendingar hafa unnið að undanfarin þrjú ár, sé sú spurningin áleit hvernig skuldug þjóð geti tryggt hagvöxt til framtíðar með áherslu á menntun. Krafan er um hagvöxt strax og um ríkisbúskap sem þjóðin ráði við. Niðurskurður í menntakerfinu hefur því verið óhjákvæmilegur þó togast hafi á sjónarmið hvað það varðar einkum um hvernig tryggja eigi hagvöxt til framtíðar enda er aukin menntun þjóðarinnar ein grundvallarforsenda fyrir aukinni velsæld eins og fram kemur í umfjöllun greinahöfunda.

Ráðherrarnir ræddu einnig um aðgerðir til að hvetja fjármálastofnanir, bæði innlendar og fjölþjóðlegar, til að efla stuðning við græna hagkerfið. Allar þær fjölþjóðlegu fjármála­stofnanir sem Norðurlöndin eiga aðild að hafa græna efnahagsstarfsemi sem áherslusvið eins og við er að búast vegna þess hversu mikla áherslu Norðurlöndin hafa lagt á umhverfismál. Í máli Oddnýjar G. Harðardóttur, fjármálaráðherra kom fram að efling græna hagkerfisins hafi verið í þungamiðju stefnu núverandi ríkisstjórnar sem hefur sjálfbærni á öllum sviðum samfélagsins að leiðarljósi. Að þessu hafi verið unnið á undanförnum árum þrátt fyrir efnahagsþrengingar. Hún benti félögum sínum á að Alþingi hafi nýlega samþykkt tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til eflingar græna hagkerfisins. Tillagan hafði verið undirbúin af nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Í henni væri meðal annars fjallað um aukið aðgengi grænna fjárfestinga að fjármagni bæði vegna rannsókna og þróunar og framkvæmda.

Oddy-og-SigbjornOddný G. Harðardóttir fjármálaráðherra ásamt Sigbjørn Johansen fjármálaráðherra Noregs sem stýrði ráðherrafundinum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum