Hoppa yfir valmynd
29. júní 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

ESA samþykkir ríkisaðstoð við Íslandsbanka

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur samþykkt ríkisaðstoð sem veitt var í tengslum við endurskipulagninu og endurreisn Íslandsbanka. Samkvæmt ákvörðun ESA fólu ráðstafanir stjórnvalda sem tengjast stofnun og endurskipulagningu bankans í sér ríkisaðstoð sem samrýmist reglum EES-samningsins, en líkt og greint hefur verið frá lagði ríkissjóður bankanum til eiginfjárframlag í formi hlutafjár og víkjandi láns, auk þess sem bankanum var veitt lausafjárfyrirgreiðsla. 

Íslensk stjórnvöld hafa frá falli gömlu bankanna í október 2008 átt í samskiptum við ESA vegna stofnunar og endurreisnar nýju viðskiptabankanna þriggja, Íslandsbanka, Landsbankans og Arion baka.

Fjármálaráðuneytið hafði forystu í vinnu stjórnvalda við endurreisn bankanna, en í þeirri vinnu sem nú er lokið með ákvörðun ESA hefur ráðuneytið átt samvinnu við bankann, efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Fjármálaeftirlitið, Seðlabanka Íslands, Bankasýslu ríkisins og utanaðkomandi sérfræðinga. Líkt og fram kemur í fréttatilkynningu ESA vegna ákvörðunarinnar hefur stofnunin átt samstarf við Samkeppniseftirlitið við meðferð málsins.

Þessi niðurstaða er staðfesting á þeim ákvörðunum sem teknar voru í því miði að koma á fót stöðugara bankakerfi á Íslandi eftir efnahagshrunið og tryggja um leið skilyrði fyrir virkri samkeppni á bankamarkaði. Jafnframt er niðurstaða ESA skref í átt að því markmiði að ríkið fái arð af því fé sem það leggur til endurreisnar íslenskra fjármálafyrirtækja.

Ráðuneytið vonast til þess að ákvarðanir ESA vegna endurreisnar Arion banka og Landsbankans liggi fyrir innan skamms.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum