Hoppa yfir valmynd
13. júní 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfirlýsing vegna úrskurðar um yfirtöku Landsbankans á SpKef sparisjóði

Í tilefni af fréttaflutningi og umræðna í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar um yfirtöku Landsbankans hf. á SpKef sparisjóði vill fjármálaráðuneytið árétta eftirfarandi atriði vegna SpKef sparisjóðs, áður Sparisjóðurinn í Keflavík.

Einnig er bent á fréttir og fréttatilkynningar sem ráðuneytið hefur sent frá sér vegna málefna Sparisjóðs Keflavíkur og SpKef sparisjóðs. Rétt er að ítreka að stofnum SpKef sparisjóðs og yfirtaka ríkissjóðs á tilteknum eignum og skuldbindingum sjóðsins helgast af því einu að stjórnvöld hugðust standa við gefnar skuldbindingar um vernd innstæðna. Hefði það ekki verið gert hefðu innstæðueigendur í Sparisjóði Keflavíkur, einir innstæðueigenda á Íslandi, ekki fengið innstæður sínar tryggðar.

Þann 22 apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald stofnfjáreigendafundar í Sparisjóðnum í Keflavík, á grundvelli heimildar í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. IV. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. FME vék þá stjórn sparisjóðsins frá, skipaði honum bráðabirgðarstjórn og mælti fyrir um aðrar nauðsynlegar ráðstafanir, svo sem að ráðstafa öllum eignum og nánar tilgreindum innstæðum Sparisjóðsins í Keflavík til nýs sparisjóðs, SpKef sparisjóðs.

SpKef sparisjóður var stofnaður af fjármálaráðuneytinu samkvæmt heimild í 1. gr. laga nr. 125/2008,oft nefnd neyðarlögin, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. í því skyni að taka við eignum og innstæðuskuldbindingum Sparisjóðsins í Keflavík samkvæmt ákvörðun FME. Þetta var gert í kjölfar þess að stjórn sparisjóðsins skilaði inn starfsleyfi sínu þar sem fyrir lá að sjóðurinn uppfyllti ekki starfsleyfi, þrátt fyrir ítrekaða fresti, og sýnt var að tilraunir til að endurskipuleggja fjárhag hans í samvinnu við kröfuhafa, og eftir atvikum með stofnfjárframlagi úr ríkissjóði, myndu ekki ná fram að ganga.

Rökin fyrir ákvörðuninni

Rökin fyrir því að færa innstæður Sparisjóðsins í Keflavík yfir í nýtt félag koma fram í minnisblaði nefndar um fjármálakerfið þann 21. apríl 2010, en í nefndinni voru fulltrúar frá forsætis-, fjármála-, og efnahags- og viðskiptaráðneyti, FME  og Seðlabanka Íslands. Í minnisblaðinu kemur fram það mat nefndarinnar að staða Sparisjóðsins í Keflavík hafi verið þannig, eftir að samningar við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu runnu út í sandinn, að nauðsynlegt sé að Fjármálaeftirlitið taki yfir stjórn sparisjóðsins og færi innstæður og eignir til nýs fjármálafyrirtækis. Taldi nefndin þetta nauðsynlegt til þess að tryggja fjármálastöðugleika og viðhalda eins og kostur væri óskertan og truflunarlausan aðgang að innstæðum og bankaþjónustu fyrir viðskiptamenn sparisjóðsins. Taldi nefndin mikilvægt að halda rekstri sparisjóðsins óbreyttum í upphafi með því að færa reksturinn í sjálfstætt félag, en ekki sameina hann strax við aðra fjármálastofnun.

Að frumkvæði Bankasýslu ríkisins var ákveðið að  viðtökufélag eigna og innstæðna sparisjóðsins yrði einnig sparisjóður. Á þeim tíma var almenn samstaða um að það bæri að leitast við að tryggja framtíð sparisjóðakerfisins í landinu þrátt fyrir þau áföll sem einstakir sparisjóðir hefðu  orðið fyrir við og í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Litið var til þess að umsvif og stærð Sparisjóðsins í Keflavík væru slík, með starfssvæði sem spannaði allt frá Reykjanesi að Húnaþingi með 16 afgreiðslustaði, að sparisjóðurinn hefði alla burði til að verða kjölfesta í endurreistu sparisjóðakerfi í landinu. Hægt var að færa fyrir því gild rök að sparisjóðakerfið allt myndi veikjast verulega á landsvísu ef starfsemi sparisjóðsins yrði hætt. En líkt og síðar kom í ljós reyndust væntingar til þess að sparisjóðurinn gegndi slíku hlutverki ekki raunhæfar.

Kostnaðurinn

Vorið 2010 var verðmæti eigna Sparisjóðsins í Keflavík metið og byggt á fyrirliggjandi endurskoðuðum ársreikningi sparisjóðsins frá 31.12. 2008 og hálfsárs óendurskoðuðum reikningi, sem hafði að geyma mat stjórnenda hans frá 30.6. 2009. Það mat sætti svo ítrekaðri skoðun og yfirferð, m.a. af hálfu FME haustið 2009, af hálfu PWC í nóvember 2009, auk skoðun Deutche Bank á yfirferð PWC í mars 2010. Ekki tókst að ná samkomulagi við kröfuhafa um afskriftaþörf á skuldum sparisjóðsins og fjárhagslegri endurskipulagningu með þeirra aðkomu og ríkisins. Þegar sparisjóðurinn var tekinn yfir af FME  í apríl 2010 gerðu drög að skiptireikningi hans,  unnin af PWC fyrir FME, ráð fyrir því að eigið fé hans væri um 5 milljarðar.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins, í samvinnu við Bankasýslu ríkisins, var skipuð ný stjórn  fyrir SpKef sparisjóð og skipt um helstu stjórnendur sparisjóðsins, þ.m.t. sparisjóðsstjóra. Fór fjármálaráðuneytið fram á það við nýja stjórn og stjórnendur að útlánasafn sparisjóðsins yrði endurmetið frá grunni til þess að hægt væri að leggja mat á fjármagnsþörf við endurreisn sparisjóðsins og semja um uppgjör við kröfuhafa. Þá komu nýir endurskoðendur að endurskoðun reikninga sparsjóðsins. 

Í júní 2010 felldi Hæstiréttur dóm í svokölluðu gengistryggingarmáli og haustið 2010 voru teknar ákvarðanir um umfangsmikið úrræði fyrir skuldara fjármálafyrirtækja, jafnt einstaklinga og fyrirtæki, sem hleypt var af stokkunum. Þessar dómsniðurstöður og tengdar ákvarðanir höfðu áhrif á verðmæti útlánasafnsins auk þes sem ný stjórn og stjórnendur, með nýjum
endurskoðendum (Ernst & Young hf.), endurmátu útlánasafnið frá grunni á nýjum< forsendum. Bráðabirgðaniðurstaða þessara aðila lá fyrir í lok febrúar 2011. Var niðurstaða þeirra að ætla mætti að eigið fé SpKef sparisjóðs væri neikvætt um 11.2 mi.kr., miðað við 31.12. 2010.

Þessi slæma staða sparisjóðsins varð svo til þess að fallið var frá áformum um að endurreisa hann og samið við Landsbankan hf. um yfirtöku. Var það gert að tillögu Bankasýslu ríkisins.

Vorið 2011 réð FME Íslenska endurskoðendur ehf. til þess að leggja mat á verðmæti eigna og yfirtekinna skulda miðað við 22. apríl 2010, eða þann dag sem Fjármálaeftirlitið færði eignir og skuldir til SpKef sparisjóðs. Ástæða þessa var að ekki tókust samningar við kröfuhafa um uppgjör og því bar FME að hlutast til um hlutlaust mat á eignum og skuldum. Íslenskir endurskoðendur ehf. skiluðu mati sínu í janúar 2012 og var niðurstaða þeirra að yfirfærðar eignir hafi verið 17,2 mkr. minna virði en yfirfærðar skuldir, þ.e. eigið fé SpKef sparisjóðs hafi verið neikvætt um 17.2 mkr. á stofndegi.

Þessar tölur sýna að efnahagur Sparisjóðsins í Keflavík reyndist langtum verri en áður var talið. Ljóst var að virði eignasafnsins hafði verið stórlega ofmetið, innviðir sparisjóðsins voru veikari en áður var talið, staða fyrirtækja og atvinnuástand á starfssvæði sjóðsins slæmt og orðspor sjóðsins stórlega laskað. Einnig höfðu gengislánadómar veruleg áhrif á stöðu sparisjóðsins.

Eftir yfirtöku Landsbankans á SpKef sparisjóði lagði bankinn sjálfstætt mat á mismun á eignum og skuldum SpKef sparisjóðs og komst að því í júní 2011 að sá mismunur næmi tæpum 30 ma. kr. Mismunur á mati stjórnenda SpKef sparisjóðs og Landsbankans var því tæplega 17 mia. kr. Þar sem fjármálaráðuneytið og Landsbankinn náðu ekki samkomulagi um uppgjör ákvað Landsbankinn að vísa málinu til úr skurðarnefndar í samræmi við ákvæði í yfirtökusamningi milli aðila. Nefndin skilaði einróma niðurstöðu þann 7. júní s.l. Eins og kunnugt er hljóðaði niðurstaðan upp á að ríkið skyldi greiða Landsbankanum 19,2 milljarða króna og verður það gert með skuldabréfi í formi ríkisskuldabréfs (RIKH 18), sem er á gjalddaga þann 9. október 2018.

Rétt er að ítreka að stofnum SpKef sparisjóðs og yfirtaka ríkissjóðs á tilteknum eignum og skuldbindingum sjóðsins helgast af því einu að stjórnvöld hugðust standa við gefnar skuldbindingar um vernd innstæðna. Hefði það ekki verið gert hefðu instæðueigendur í Sparisjóði Keflavíkur, einir innstæðueigenda á Íslandi, ekki fengið innstæður sínar tryggðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum