Hoppa yfir valmynd
6. mars 2012 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vinnustofa um notkun opinberra aðila á tölvuskýjum

Innanríkisráðuneyti og fjármálaráðuneyti boða til vinnustofu um notkun opinberra aðila á tölvuskýjum kl. 8:30 til 12 föstudaginn 9. mars 2012 í Háskólanum í Reykjavík í sal M104 Fönix.

Dagskrá vinnustofu


8:30 Inngangur: Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneyti.
8:40 Hvað er tölvuský: dr. Ýmir Vigfússon, Háskólanum í Reykjavík.
9:00 - 12:00 Morten Jörsum frá Digitaliseringsstyrelsen í Danmörku leiðir kynningu og umræður undir eftirfarandi dagskrárliðum (á ensku):

  • Kynning á samstarfverkefni Norðurlandanna um tölvuský og kynning skýrslunnar „Nordic Public Sector Cloud Computing – A discussion paper“.
  • Miðlun þekkingar um tölvuský milli Norðurlandanna.
  • 10:00 – 10:30 Kaffi
  • Undirbúningur reglusetningar.
  • Stöðlun.
  • Hvernig á að standa að innkaupum á þjónustu tölvuskýja.
  • Hvernig geta Norðurlöndin laðað að sér gagnaver / þjónustuveitendur á sviði tölvuskýja.
  • Önnur mögulega samstarfsverkefni.
  • Samantekt og forgangsröðun samstarfsverkefna á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Þátttaka í vinnustofunni er öllum opin og án endurgjalds.

Tölvuský er tiltölulega nýtt hugtak. Í því felst aðferð til að lækka kostnað, auka nýtingu búnaðar og auka afköst tölvudeilda. Það er gert með því að kaupa aðgang að gagnageymslum, hugbúnaði og þjónustu þar sem aðeins er greitt fyrir það gagnarými sem nýtt er eða fyrir hugbúnað og þjónustu í samræmi við notkun svo dæmi sé tekið.

Tilefni vinnustofunnar er ný norræn skýrsla um tölvuský í opinberum rekstri sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina. Yfirskrift skýrslunnar er „Nordic Public Sector Cloud Computing – A discussion paper“. Í skýrslunni er m.a. fjallað um kosti tölvuskýja fyrir opinberar stofnanir og hvernig sé hægt nýta þau í því umhverfi sem opinberar stofnanir búa við. Ríkisstofnanir og sveitarfélög eru stórir kaupendur tölvubúnaðar og þjónustu af ýmsu tagi og eru tölvuský valkostur sem í auknu mæli er í boði á markaði. Tölvuský eru nú mikið til umfjöllunar bæði á vettvangi Evrópusambandsins og í norrænni samvinnu þar sem almennt er talið að hér sé um að ræða tækifæri til hagræðingar til framtíðar litið og um leið tækifæri fyrir Evrópulönd til að skapa störf í upplýsingatækniiðnaði í tengslum við starfrækslu tölvuskýja.

Á markað eru komnar ýmsar tegundir lausna sem flokkast undir tölvuský sem hljóta að koma til skoðunar fyrir stofnanir. Hins vegar getur verið snúið fyrir opinbera aðila að átta sig á lagalegum, fjárhagslegum, tæknilegum og öryggislegum þáttum sem hafa þarf í huga við kaup á slíkri þjónustu. Um leið er brýnt að opinberir aðilar nýti sem best þann ávinning sem falist getur í tölvuskýjum af ýmsu tagi og ryðji úr vegi hindrunum á þessu sviði.

Framangreind skýrsla verður kynnt og efni hennar rætt á vinnustofunni. Einnig verður fjallað um tillögur sem fram koma í skýrslunni um hvaða verkefnum Norðurlöndin geta unnið að sameiginlega til að tryggja að opinberir aðilar nýti sem best kosti tölvuskýja innan þess lagaramma sem þau starfa með öryggi að leiðarljósi. Sem dæmi má nefna að ekki er ljóst hvernig opinberar stofnanir geta notað tölvuský þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar.

Bent hefur verið á fimm möguleg norræn samstarfsverkefni á þessu sviði þ.e. :

  • Miðlun þekkingar um tölvuský milli Norðurlandanna.
  • Undirbúningur reglusetningar.
  • Stöðlun.
  • Hvernig á að standa að innkaupum á þjónustu tölvuskýja.
  • Hvernig geta Norðurlöndin laðað að sér gagnaver / þjónustuveitendur tölvuskýja.

Þátttakendur í vinnustofu eru hvattir til að velta fyrir sér á hvaða sviðum Íslendingar hefðu mestan ávinning af samstarfi við önnur Norðurlönd. Í meðfylgjandi skýrslu er að finna nánari upplýsingar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum