Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Minnisatriði vegna kolefnisgjalds

Fjármálaráðherra fundaði í gær með fulltrúum orkufyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins ásamt starfsmönnum fjármála-og iðnaðarráðuneyta. Á þeim fundi lagði fjármálaráðherra fram minnisblað þar sem eftirfarandi atriði koma fram. Ráðherra lagði einnig fram sambærilegt minnisblað á ríkisstjórnarfundi í morgun.

1.  Í frumvarpi til laga  um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem liggur fyrir Alþingi (Þingskjal 200  —  195. mál) er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð kolefnisgjald af kolefni af jarðefnauppruna í föstu formi leiði sú notkun til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Með kolefni af jarðefnauppruna í föstu formi er átt við kol, koks, rafskaut og deig til rafskautagerðar. Samkvæmt frumvarpinu hefst þessi gjaldtaka frá og með ársbyrjun 2013 og er miðað við að skattlagning kolefna í föstu formi verði 50% af viðmiðunarverði losunarheimilda á árinu 2013, en hækki síðan í 75% og 100% á árunum 2014 og 2015.

2. Sá fyrirvari er hafður á í frumvarpinu að ekki liggi fyrir endanlegar útfærslur varðandi viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Í greinargerð með frumvarpinu segir orðrétt:
Ljóst er að taka þarf álagningu kolefnisgjalds til frekari skoðunar á næsta ári með hliðsjón af þeim breytingum sem framundan eru á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, en þær eru meðal annars fólgnar í því að losun frá álverum og járnblendi mun að öllum líkindum verða háð losunarheimildum frá og með 1. janúar 2013. Óljóst er hvað muni taka við þegar fyrsta tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur. Það er meðal annars ástæða þess að breikkun gjaldstofnsins tekur einungis til eins árs í þessu frumvarpi, en hugmyndin er sú að skoða málið heildstætt á árinu 2012.
Ekki hefur staðið til af hálfu stjórnvalda að leggja skatt í hvoru tveggja, aðföng í formi kolefnis af jarðefnauppruna og útblástur gróðurhúsalofttegunda.

3.  Í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra, annars vegar, og Samtaka atvinnurekenda og stórnotenda á raforku, hins vegar, um ráðstafanir til að að mæta erfiðri stöðu ríkissjóðs og til að stuðla að fjárfestingum í atvinnulífinu, frá 7. desember 2009, kemur eftirfarandi skýrt fram:
-    að samkomulag um þau atriði sem yfirlýsingin nær til væri tímabundið til ársloka 2012.
-    að skattheimta, að teknu tilliti til fyrirkomulags og kostnaðar vegna viðskipta með gróðurhúsalofttegundir, feli almennt ekki í sér lakari starfsskilyrði fyrir fyrirtæki sem reka starfsemi sína hér á landi samanborið við önnur Evrópuríki og erlenda samkeppnisaðila á sama markaði.
Ítrekað er að gjaldtaka af kolefni af jarðefnauppruna hefði ekki komið til framkvæmda á því tímabili sem yfirlýsingin nær til, þ.e. til ársloka 2012. Engar breytingar hafa verið áformaðar varðandi skattamál stórnotenda raforku á því tímabili sem yfirlýsingin nær til. Einnig er rétt að ítreka að fyrirheit um að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja sem reka starfsemi sína hér á landi gagnvart erlendum samkeppnisaðilum, standa óhögguð.

4.   Í ljósi þess að það mun væntanlega skýrast á komandi vikum og mánuðum, hvernig farið verði með viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda eru stjórnvöld reiðubúin til að taka af  tvímæli um að ekki komi til skattlagningar á kolefni af jarðefnauppruna, þ.e. kolum, koksi, rafskautum og deigi til rafskautagerðar, samhliða því að innleitt verði nýtt viðskiptakerfi með losunarheimildir fyrir stóriðju. Stjórnvöld áskilja sér hins vegar allan rétt til að endurskoða með almennum hætti stefnu í skattamálum og þar með talið skattlagningu á þá starfsemi sem féll undir samkomulagið frá 2009, eftir að það rennur út í árslok 2012. Áfram verður tryggt að slík skattlagning skaði ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja sem starfa hér á landi gagnvart erlendum samkeppnisaðilum.
Á þessu stigi er ekki að fullu ljóst hvernig ný fyrirtæki í orkufrekum iðnaði munu afla sér losunarheimilda, en að líkindum munu þau þurfa að kaupa umtalsverða hluta þeirra á uppboðsmarkaði. Stjórnvöld munu, fyrir sitt leyti, tryggja að forsendum fjárfestingarverkefna, sem unnið hefur verið að og gerðir hafa verið samningar um, raskist ekki.

5.   Mikilvægt er að stjórnvöld nái að vinna áfram að því að tryggja markmið um jöfnuð í ríkisfjármálum og að sá trúverðugleiki sem skapaður hefur verið verði tryggður. Erfiðir en mikilvægir áfangar hafa náðst í því tilliti á undanförnum misserum, og í nýrri ríkisfjármálaáætlun sem kynnt var í byrjun októbermánaðar sl. er lagður grunnur að því hvernig tryggt verði að afkoma ríkissjóðs haldi áfram að batna allt til ársins 2015, og að svigrúm verði skapað til að létta á skuldsetningu ríkissjóðs.
Það er ekki tilviljun að á sama tíma og lánshæfismat fjölmargra ríkja í Evrópu hefur verið lækkað, hefur mat á horfum fyrir Ísland, eitt ríkja, farið batnadi. Samþykkt fjárlaga fyrir árið 2012 með afar hóflegum halla, eða sem nemur rúmu prósentustigi, er mikilvægur liður í að tryggja þetta framhald og sömuleiðis það, að stjórnvöld geti sýnt fram á raunhæf markmið um frekari afkomubata á allra næstu árum og út gildistíma ríkisfjármálaáætlunar 2012-2015. Fullvíst má telja að stefnufesta á þessu sviði muni fljótlega bæta lánshæfismat íslenska ríkisins, til hagsbóta fyrir bæði ríkissjóð og allt atvinnulíf í landinu.

 6.  Stjórnvöld hafa átt náið samstarf við fulltrúa fyrirtækja og Samtök atvinnulífsins um það hvernig haldið er á hagsmunum Íslands varðandi innleiðingu nýs viðskiptakerfis með losunarheimildir. Næstu mánuðir eru mikilvægur tími í því tilliti. Stjórnvöld eru reiðubúin til að eiga náið og formlegt samstarf við atvinnulífið um þessi mál og skattamál þeim tengd, í anda þess samstarfs sem náðist milli aðila  2009.  Meðan á því stendur verða áform um breikkun stofns kolefnisgjalds lögð til hliðar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum