Hoppa yfir valmynd
27. maí 2011 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Athugasemdir vegna rangfærslna í frétt Morgunblaðsins

Í frétt í Morgunblaðinu í dag er fjallað um kostnað ríkisins vegna endurreisnar bankanna og er þar að finna rangfærslur og rangtúlkanir sem fjármálaráðuneytið telur rétt að bregðast við:

  • Bein hlutafjárframlög ríkisins til hinna nýju banka nema samtals um 135 milljörðum króna. Hér er um að ræða hlutafé sem myndar eign. Hér er því ekki um að ræða kostnað fyrir ríkissjóð heldur fjárfestingu.
  • Víkjandi lán til tveggja banka, nú Arion-banka og Íslandsbanka, nema samtals 55 milljörðum króna. Lánafyrirgreiðsla var veitt í íslenskum krónum en endurgreidd í Evrum. Þessi lán bera vexti og verða endurgreidd ríkissjóði á 10 árum frá útgáfudegi. Hér er því ekki um kostnað að ræða fyrir ríkissjóð heldur lánafyrirgreiðslu sem skilar ríkissjóði jákvæðum vaxtamun.
  • Lausafjárfyrirgreiðsla við fjármálastofnanir er og hefur verið skilgreind sem hlutverk seðlabanka og svo er einnig hér á landi. Sú fyrirgreiðsla keyrði úr hófi fram í aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins með afleiðingum sem eru þekktar. Ekki er ástæða til að ætla að núverandi lausafjárfyrirgreiðsla Seðlabanka Íslands við viðskiptabankana þrjá leiði til kostnaðar fyrir ríkissjóð.
  • Við yfirtöku Íslandsbanka á innstæðum í Straumi og við yfirtöku Arion-banka á innstæðum í SPRON var samið um að ríkissjóður tryggði viðkomandi bönkum aðgengi að lausu fé gegn fullum tryggingum ef kæmi til útstreymis innstæðna. Ríkissjóðuur mun ekki bera kostnað vegna þeirrar lausafjárfyrirgreiðslu.

Við yfirtöku skilanefndar Glitnis á 95% hlut í nýja Glitni, nú Íslandsbanka, var veitt fyrirheit um lán á ríkisskuldabréfum gegn fullnægjandi tryggingum, allt að 25 milljörðum króna, til september 2012, en ekki hefur reynt á það fyrirheit.

Að samanlögðu eru framlög ríkisins vegna endurreisnar viðskiptabankanna langt innan þeirra marka sem upphaflega var ráð fyrir gert svo sem nánar kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um endurreisn þeirra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum