Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2010 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Landið eitt skattumdæmi

Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný lög um breytingar á skipulagi stofnana skattkerfisins (lög nr. 136/2009, um breyting á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 og fleiri lögum), sem fólu í sér sameiningu embættis ríkisskattstjóra og níu sjálfstæðra skattstofa undir stjórn ríkisskattstjóra. Markmiðið með þessum breytingum er einkum tvíþætt: Annars vegar að ná fjárhagslegu aðhaldi í rekstri stofnana skattkerfisins og hins vegar að efla faglega starfsemi skattkerfisins. Með því að sameina embættin eru staðbundin valdmörk afnumin og landið gert að eina skattumdæmi. Þannig gefst ákveðið svigrúm til þess að dreifa álagi milli starfsstöðva í kringum landið og auka sérhæfingu innan kerfisins.

Yfirstjórn embættisins verður í Reykjavík, en áfram verða reknar starfsstöðvar á Akranesi, Ísafirði, Siglufirði, Akureyri, Egilsstöðum, Hellu, Vestmannaeyjum og í Hafnarfirði. Þá verður Skattstofan í Reykjavík rekin áfram fyrst um sinn.

Gert er ráð fyrir að fjárhagslegur sparnaður af þessum aðgerðum nemi um 140 m.kr. á þessu ári. Áætlanir gera ráð fyrir fækkun starfsfólks án þess að það komi til uppsagnar af hálfu embættis ríkisskattstjóra. Ekki verður ráðið í allar stöður sem losna (svo sem vegna aldurs, eða að frumkvæði starfsmanna), einhverjir starfsmenn sem ráðnir hafa verið tímabundið fá ekki áframhaldandi ráðningu og ekki er gert ráð fyrir áframhaldandi verkefnum fyrir þá sem sinnt hafa þeim í tímavinnu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum