Hoppa yfir valmynd
28. ágúst 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Íbúaþróun á árinu 2009

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 27. ágúst 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í síðustu viku birti Hagstofa Íslands tölur um miðársmannfjölda í ár ásamt gögnum um búferlaflutninga á fyrri hluta þessa árs.

Það vakti athygli að heildaríbúafjöldi landsins hafði minnkað milli ára þótt fækkunin næmi einungis rúmlega eitt hundrað manns. Þetta eru að sjálfsögðu mikil viðbrigði enda hefur þjóðinni fjölgað mjög ört á undanförnum árum, bæði vegna þess að Ísland er eitt fárra Evrópulanda þar sem fæddir eru fleiri en dánir en ekki síst vegna þess hversu mikill aðflutningur hefur verið umfram brottflutning.

Nú hafa veður skipast í lofti. Rétt er að nefna að það hefur áhrif á tölur um búferlaflutninga að stöðugt er unnið að því að leiðrétta íbúaskrár. Búferlaflutningar hafa oft verið skráðir löngu eftir að raunverulegur flutningur á sér stað og því er ekki víst að birtar tölur endurspegli nákvæmlega það sem verið hefur að gerast síðustu 6 mánuðina.

Fram hefur komið í fréttum að mjög mikið hefur verið um fæðingar og það hefur áhrif til að vega á móti áhrifum flutninga. Í tölum Hagstofunnar um miðársmannfjölda kemur fram að 1. júlí eru 4.910 börn innan við eins árs aldur. Ef svo heldur sem horfir gæti fæðingarárgangur ársins 2009 orðið yfir 5.000. Í öllu falli er ljóst að hópurinn verður sá fjölmennasti í að minnsta kosti 60 ár og sennilega frá upphafi. Sá næst fjölmennasti fæddist raunar árið 2008. Á hverju ári látast um 2.000 manns og því eru fæddir umfram dána um 3.000 sem er nálægt 1% af íbúafjöldanum. Í ár vega búferlaflutningarnir svo þungt að í heildina er um fólksfækkun að ræða.

Búist hafði verið við því að þegar draga tæki úr uppsveiflunni myndi erlent vinnuafl sem átti stóran þátt í að manna margvíslegar framkvæmdir fara af landi brott. Það rættist einkum að því er varðar stórframkvæmdirnar eystra árið 2008. Hins vegar gerðist þetta alls ekki annars staðar og þótt nú séu í fyrsta sinn fleiri brottfluttir erlendir ríkisborgarar en aðfluttir er nettótalan sé innan við 4% af heildarfjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi frá árinu 2000. Raunar er það svo að konum meðal erlendra ríkisborgar heldur áfram að fjölga. Vissulega hefur brottfluttum erlendum ríkisborgurum fjölgað þótt þeir gætu orðið færri í ár en í fyrra. Aðalbreytinginer að aðfluttum hefur fækkað meira en brottfluttum.

Á undanförnum áratugum hafa aðfluttir íslenskir ríkisborgarar einungis í undantekningartilvikum verið fleiri en brottfluttir. Flutningarnir eru að einhverju leyti í tengslum við ástandið í þjóðfélaginu og efnahagsástand í þeim löndum sem flutt er til en það eru einkum Norðurlöndin. Mestur fjöldi íslenskra ríkisborgara flutti brott á einu ári árið 1995, 3.566 en þá nam aðflutningur 1.929 manns. Á fyrri hluta ársins í ár hafa 1.902 íslenskir ríkisborgarar flutt til útlanda og reynslan er sú að brottflutningur sé meiri á seinni helmingi ársins og tengist það skólavist erlendis. Því stefnir í að árið í ár gæti orðið mesta brottflutningsár síðari tíma. Því má hins vegar ekki gleyma að mismunur brottfluttra og aðfluttra er oftast lítið hlutfall af flutningum samtals. Allmargir íslenskir ríkisborgarar hafa þannig flutt til landsins í ár og alls ekki er víst að árið verði metár í því sambandi.

Á myndinni hér fyrir neðan eru sýndir búferlaflutningar undanfarin ár ásamt spá um mögulega niðurstöðu fyrir árið í heild. Samkvæmt henni fjölgar íbúum ekki hérlendis í ár þar sem flutningarnir jafnast á við fædda umfram dána. Enda þótt íslenskir ríkisborgarar flytji í auknum mæli utan er því ekki spáð að þetta verði versta ár undanfarinna áratuga að því er varðar nettóbrottflutning þeirra. Fækkun erlendra ríkisborgara vegna búferlaflutninga í ár nemur um það bil fjölgun þeirra í fyrra.

Búferlaflutningar 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum