Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sparnaðarátak og lækkun kostnaðar

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu fjármálaráðherra um sparnaðarátak í ríkiskerfinu. Þá var tilaga fjármálaráðherra um aðgerðir til þess að draga úr launakostnaði og öðrum kostnaði samþykkt á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag.

Lækkun launakostnaðar og annars kostnaðar

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

Gætt verði ítrasta aðhalds í rekstri ríkisins, þóknanir fyrir nefndir verði lækkaðar eða lagðar af, hömlur verði settar á aðkeypta ráðgjafaþjónustu og sú stefna mörkuð að engin ríkislaun verði hærri en laun forsætisráðherra. Settar verði samræmdar reglur allra ráðuneyta um niðurskurð í ferða-, risnu- og bifreiðakostnaði. Sjálfstæðum hlutafélögum í eigu ríkisins verði settar skýrar reglur um launastefnu og útgjaldastefnu í þessum anda.

Þær tillögur sem ríkisstjórnin samþykkti á föstudag eru í samræmi við þetta og eru eftirfarandi:

  • að heildarlækkun launa umfram 400 þús. á mánuði hjá starfsfólki stjórnarráðsins verði á bilinu 3-10% og að lækkun launa verði almennt meiri í ráðuneytum sem borga hærri meðallaun,
  • að fjármálaráðuneyti og hlutaðeigandi fagráðuneyti útfæri leiðir til að ná fram samsvarandi lækkun launa umfram 400 þús. kr á mánuði hjá stofnunum ríkisins, í samstarfi við forstöðumenn,
  • að öllum aksturssamningum við starfsmenn ríkisins verði sagt upp og aðeins verði greitt fyrir akstur skv. akstursbók,
  • að viðmiðunarreglur um fyrirkomulag greiðslna fyrir störf í stjórnum, ráðum, nefndum og starfshópum verði samþykktar,
  • að starfsmönnum verði eingöngu greitt skv. reikningi vegna ferðalaga innanlands og skýrt tekið fram að ferðakostnaður fari ekki umfram viðmið ferðakostnaðarnefndar,
  • að áfram verði stuðst við núverandi reglur um risnuhald hjá ríkisstofnunum og þær áréttaðar, en stefnt að a.m.k. 15% lækkun milli ára.

Fjármálaráðuneytið mun aðstoða einstök ráðuneyti við framangreind verkefni eins og þörf er á. Áhersla er lögð á að ráðuneytin hefji þegar undirbúning að því að hrinda framangreindum ráðstöfunum í framkvæmd.

Sparnaðarátak í ríkiskerfinu

Tillaga fjármálaráðherra um sparnaðarátak gengur út á að aðstoða ríkisaðila við að halda sig innan ramma fjárveitinga. Ætlunin er að virkja alla starfsmenn ríkisins og nýta góðar hugmyndir til að ná fram fjárhagslegum ávinningi. Jafnframt verður leitað eftir hugmyndum hjá notendum þjónustu þar sem við á.

Fjármálaráðuneytið mun leiða verkefnið og vera í góðu samstarfi við önnur ráðuneyti um framkvæmd þess.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum