Hoppa yfir valmynd
18. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýleg könnun um stöðu og framtíðarhorfur fyrirtækja

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 18. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í upphafi mánaðar lágu fyrir niðurstöður nýrrar könnunar Capacent Gallup um stöðu og framtíðarhorfur 500 stærstu fyrirtækja á Íslandi, þar sem stuðst er við heildarlaunagreiðslur þegar stærstu fyrirtækin eru valin.

Könnunin er samstarfsverkefni fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Capacent Gallup. Könnunin var gerð á tímabilinu 19. maí til 29. maí 2009 og svarhlutfall var 47,5%. Alls tóku 212 fyrirtæki þátt í könnuninni að þessu sinni en í endanlegu úrtaki voru 446 fyrirtæki.

Líkt og í undanförnum könnunum er vísitala efnahagslífsins í lágmarki og mælist nú 0,0 stig en vísitalan nær frá 0 upp í 200 stig og túlka má 100 stig þannig að jafnmargir séu jákvæðir og neikvæðir. Nær allir forráðamenn fyrirtækjanna telja aðstæður í efnahagslífinu frekar slæmar eða mjög slæmar og eru niðurstöðurnar svipaðar hvort sem fyrirtækin eru á höfuðborgarsvæðinu eða af landsbyggðinni.

Vísitala efnahagslífsins

Ef forráðamenn fyrirtækjanna eru beðnir að hugsa sex mánuði fram í tímann eru niðurstöðurnar einnig neikvæðar og mælist vísitala efnahagslífsins 35,7 stig en hún mældist 93,4 stig í mars síðastliðnum. Það eru því mun fleiri nú en í síðustu könnun sem telja að aðstæður í efnahagslífinu muni versna á næstu sex mánuðum. Eru forráðamenn fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu minna bjartsýnir en forráðamenn fyrirtækja á landsbyggðinni. Forráðamenn fyrirtækja í bygginga- og veitustarfsemi eru einna svartsýnastir og mælist vísitala þeirra 0 stig sem þýðir að allir telja að aðstæður í efnahagslífinu muni versna á næstu sex mánuðum. Forráðamenn fyrirtækja í fjármála- og tryggingastarfsemi eru aftur á móti minna svartsýnir hvað næsta hálfa árið varðar og mælist vísitala þeirra 75 stig.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum