Hoppa yfir valmynd
11. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Efnahagslíf Norðurlandanna

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 11. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Norðurlöndin fara ekki varhluta af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu sem nú geisar.

Spáð er nokkrum samdrætti í landsframleiðslu á öllum Norðurlöndunum á yfirstandandi ári en hvergi er þó ástandið eins erfitt og hér á landi. Virðist sem Noregur komi best úr þessu árferði en fjármálaráðuneyti Noregs spáir 1,9% samdrætti í landsframleiðslu (fastaland) á yfirstandandi ári. Í Svíþjóð er aftur á móti gert ráð fyrir 4,2% samdrætti og nýlegar vísbendingar benda til að samdrátturinn verði lítið eitt meiri þar í landi. Í Finnlandi er spáð 5% samdrætti á árinu. Í Danmörku er gert ráð fyrir 2,5% samdrætti í landsframleiðslu á yfirstandandi ári.

Vinnumarkaðurinn í Finnlandi 1990-2010

Líkt og hér á landi er atvinnuleysi að aukast hröðum skrefum. Í Finnland, þar sem kerfislægt atvinnuleysi er metið vera mjög hátt, er gert ráð fyrir svipuðu atvinnuleysi og hérlendis, eða í kringum 9-10% af vinnuafli. Atvinnuleysi jókst mjög hratt í Finnlandi við fall Sovétríkjanna eða úr ca. 3% í um 17% á þremur árum. Síðan lækkaði atvinnuleysið hægt og rólega og fór lægst í 6,4% á sl. ári en er spáð 9% á þessu ári. Í Finnlandi og Svíþjóð var „öryggisnet” atvinnulausra treyst umtalsvert þegar atvinnuleysið varð sem mest sem gerði að verkum að hvatinn til þess að fara aftur út á vinnumarkaðinn þegar umsvif í efnahagslífinu jukust á ný var ekki eins mikill og áður. Í Finnlandi hefur atvinnustigið sem var 74,1% árið 1990 hæst farið síðan í 70,6% á sl. ári eftir að það tók mikla dýfu í upphafi kreppunnar. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysið fari yfir 11% á spátímabilinu í Svíþjóð en í 5% í Danmörku á næsta ári en þar var atvinnuleysi einungis 1,8% af vinnuafli á síðastliðnu ári. Í Noregi er einnig gert ráð fyrir að atvinnuleysishlutfallið aukist en einungis lítillega og verði um 2,5-3% af vinnuafli á yfirstandandi ári.

Norðurlöndin eru lítil opin hagkerfi og eru næm fyrir samdrætti í eftirspurn viðskiptalanda sinna. Útflutningsgreinar þeirra eru mjög háðar hinni alþjóðlegri hagsveiflu og verða fyrir nokkru höggi sem skýrir samdráttinn í landsframleiðslunni. Innlend eftirspurn dregst minna saman og þar af einkaneyslan sem dregst saman um 1-2% að Noregi undanskildum en þar er spáð 2,5% vexti í einkaneyslu árið 2009. Þar virðist sem vöxtur í atvinnuleysi skili sér ekki í miklum samdrætti í einkaneyslu líkt og hér á landi enda hefur efnahagsreikningur heimila Norðurlandanna ekki beðið tjón í líkingu við efnahagsreikning íslensk raheimila. Norðurlöndin geta því frekar gripið til sparnaðar síns til þess að viðhalda neysluvenjum auk þess sem þau ekki lifað umfram efni á undanförnum árum í sama mæli og Íslendingar hafa gert.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum