Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Bakgrunnsefni um lán Norðurlandanna til Íslands

Fjármálaráðuneytið

Samninganefnd um gjaldeyrislán

1. júlí 2009

 

 

Bakgrunnsefni um lán Norðurlandanna til Íslands.

Í dag voru undirritaðir í Stokkhólmi lánasamningar milli Norðurlandanna fjögurra og Íslands. Norræna lánið til Íslands er veitt í evrum og er samtals að fjárhæð 1.775 milljónir evra, jafnvirði 2.500 milljónir Bandaríkjadala, eða um 317 milljarða íslenskra króna. Lánasamningarnir við Danmörku, Finnland og Svíþjóð eru milli íslenska ríkisins og þessara ríkja, en við Noreg er lánasamningurinn milli seðlabanka landanna.

Íslendingar meta mikils þann stuðning sem Norðurlöndin hafa veitt Íslendingum í glímunni við fjármálakreppuna sem skall yfir Ísland með miklum þunga þegar þrír stærstu bankar landsins komust í þrot í byrjun október 2008. Ákvörðunin sem tekin var á fundi norrænu forsætisráðherranna í Helsinki þegar 27. október 2008 að setja á stofn starfshóp háttsettra embættismanna til að undirbúa stuðning við Íslendinga af hálfu Norðurlanda í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) var afar mikils virði. Á þessum grundvelli ákváðu svo fjármálaráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar 19. nóvember 2008 að veita Íslendingum 2.500 milljóna Bandríkjadala lán í tengslum við og til stuðnings íslensku efnahagsáætluninni sem samið var um við AGS sama dag í því skyni að koma á jafnvægi í íslenskum efnahagsmálum og endurreisa atvinnulífið. Á sama tíma lýstu Færeyingar því yfir að þeir myndu veita Íslendingum lán að fjárhæð 300 milljónir danskra króna til að styðja endurreisn efnahags á Íslandi. Samningur hefur verið gerður um þetta lán milli Færeyja og Íslands. Stuðningur Norðurlanda skiptir sköpum um möguleika Íslendinga til þess að vinna sig út úr aðsteðjandi erfiðleikum.

Heildarfjárhæð og útborgun lánanna

Heildarfjárhæð norrænu lánanna er 1.775 milljónir evra, jafnvirði 2.500 milljóna Bandaríkjadala. Lánsféð verður greitt út í fjórum jöfnum greiðslum sem eru tengdar endurmati AGS á íslensku efnahagsáætluninni . Áætlað er að fyrsta endurmatið fari fram í ágústmánuði og að því loknu greiðsla fyrsta hluta Norrænu lánanna.

Lánstími og endurgreiðsla

  • Heildarlánstíminn er 12 ár
  • Fyrstu 5 árin eru afborganalaus og aðeins greiddir vextir af lánunum ársfjórðungslega
  • Að loknum 5 árum verður höfuðstóll lánanna endurgreiddur í jöfnum greiðslum, ársfjórðungslega út lánstímann.

 

Vaxtakjör

Lánin munu bera breytilega (fljótandi) vexti sem taka mið af 3 mánaða EURIBOR vöxtum að viðbættu 2,75 prósentu álagi.

Dæmi: 3 mánaða EURIBOR vextir eru nú 1,099%[1]; að viðbættu álaginu bera lánin því 3,849% vexti miðað við núverandi vexti.

Að gerðum samningum við Norðurlandaþjóðir er þess nú freistað að ná samningum við Rússa og Pólverja um gjaldeyrislán til stuðnings efnahagsáætlun Íslands í samstarfi við AGS. Þessi tvö ríki gáfu í nóvember í fyrra fyrirheit um slík lán að fjárhæð allt að 500 milljónir Bandaríkjadala frá Rússum og 200 milljónir Bandaríkjadala frá Pólverjum. Samningaviðræður við þessi ríki fara nú fram í góðum anda. Samkomulagið við Breta og Hollendinga um lausn á Icesave deilunni sem náðist í byrjun júní var mikilvægur áfangi í því að tryggja framgang efnahagsáætlunar Íslendinga með AGS. Tvíhliða lánssamningar við öll framangreind ríki eru snar þáttur í eflingu gjaldeyrisvaraforða Íslands sem er nauðsynlegur til þess að ná stöðugleika í gengismálum og endurreisa atvinnulífið. Þá er ekki síður mikilvægt að með þessum hætti eru tryggð góð samskipti Íslendinga við nágrannaþjóðir og alþjóðasamfélagið sem er forsenda þess að hér á landi dafni farsælt þjóðlíf.



[1] Skráðir vextir 30. júní 2009.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum