Hoppa yfir valmynd
5. júní 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruskiptin í maí 2009

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. júní 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands nam innflutningur vöru á fob virði í maí 31,7 ma.kr. sem er eilítil aukning frá apríl þegar innflutningurinn nam 29,4 ma.kr.

Útflutningur vöru nam aftur á móti 38,7 ma.kr. og er það nokkur aukning frá aprílmánuði þegar útflutningur nam 31,7 ma.kr. Afgangur á vöruskiptum í maí nam því 7,3 ma.kr.

Það sem helst skýrir aukinn innflutning í maí er aukinn innflutningur á olíu og eldsneyti en þessi innflutningur er jafnan nokkuð sveiflukenndur og var með minnsta móti í apríl. Lítillegur samdráttur var aftur á móti í innflutningi hrá- og rekstrarvara en hann var nokkuð mikill í apríl. Þessi innflutningur er nú mun sveiflukenndari en áður samfara auknum innflutningi súráls.

Verðvísitala sjávarafurða í erlendri mynt 1995-2017

Vísbendingar eru um að verðmæti útfluttra sjávarafurða hafi verið mjög gott í maí eftir að það dróst nokkuð saman í upphafi ársins í kjölfar hríðfallandi verðs í erlendri mynt. Lágt gengi íslensku krónunnar kemur sér vel fyrir útflutningsgreinarnar en á móti kemur að verð allflestra íslenskra útflutningsafurða hefur dregist mjög saman í erlendri mynt á undanförnum mánuðum. Hvað sjávarafurðirnar varðar hefur verð ferskra botnfisksafurða lækkað mest á erlendum mörkuðum þar sem neytendur færa sig nú meira yfir í ódýrari neysluvörur. Einnig hefur gætt nokkurrar sölutregðu á undanförnum mánuðum sem gert hefur það að verkum að birgðir hafa aukist hér innanlands. Nú virðist sem mesta lækkunarferlið sé yfirstaðið í bili og meira jafnvægi sé komið á markaðinn en mjög erfitt er að spá fyrir um þróun fiskverðs þar sem framboðið er mjög háð duttlungum náttúrunnar. Einnig eru vísbendingar um að verðmæti útflutts áls sé með ágætasta móti í maí en það hríðféll í upphafi ársins og hefur verið mjög lágt samanborið við allan seinni helming sl. árs. Eftirspurn eftir álafurðum hefur dregist mikið saman í kjölfar fjármálakreppunnar og þ.a.l. heimsmarkaðsverð áls. Má því búast við að verðmæti útflutts áls verði áfram nokkuð lágt á næstu misserum en á móti kemur að þá dregst innflutningsverðmætið einnig saman þar sem verðþróun súráls hefur mjög sterka fylgni við verðþróun fullunninna álafurða.

Staðvirtur vöruinnflutningur án skipa og flugvéla janúar 2004 - maí 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum