Hoppa yfir valmynd
14. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Atvinnuleysi að breytast

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 14. maí 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í gær gaf Vinnumálastofnun út nýjar tölur um atvinnuleysi.

Atvinnuleysi sem hlutfall af vinnuafli er enn að aukast. Þó ber svo við í fyrsta skipti sl. tólf mánuði að færri eru atvinnulausir en mánuðinum á undan. Á myndinni má sjá breytingar á atvinnuleysi á milli mánaða á undanförnum mánuðum, bæði eftir kyni og landsvæðum.

Atvinnulausum tók að fjölga í fyrrasumar einkum meðal karla á höfuðborgarsvæðinu (HBS). Í september 2008 tók síðan steininn úr og hefur atvinnuleysi farið vaxandi í hverjum mánuði hjá körlum, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Í janúar og febrúar fjölgaði atvinnulausum körlum þar um nær 1.500 í hvorum mánuði. Þá var þegar farið að draga úr aukningu atvinnuleysis karla á landsbyggðinni þótt þeim fjölgaði enn ört. Atvinnulausum konum hefur einnig fjölgað en sú fjölgun hefur verið misjafnari og minni en hjá körlum.

Fjöldi atvinnulausra - breyting frá fyrra mánuði

Í apríl hefur það svo gerst að atvinnulausum körlum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði lítið en konunum meira og það er í fyrsta skipti frá því atvinnuleysið tók að vaxa að konunum fjölgar meira en körlunum. Á landsbyggðinni hefur atvinnulausum fækkað, og meira hjá körlum en konum. Það er í samræmi við hefðbundna árstíðasveiflu en atvinnuleysi dregst yfirleitt saman á vorin. Nýliðun í atvinnuleysisskráningu, sem er mælikvarði á það hversu margir missa vinnuna var 744 í síðasta mánuði og hefur lækkað mikið.

Fjöldi atvinnulausra sem kemur úr mannvirkjagerð, verslun og ýmissi þjónustu stendur því sem næst í stað milli mánaða en í þessum greinum er það talið vera orðið mest. Þeim fækkar sem taldir eru hafa komið úr iðnaði og flutningastarfsemi en hlutfallslegt atvinnuleysi í seinni greininni var næst mest. Atvinnuleysi er enn að vaxa í sérfræðiþjónustu og öðrum greinum. Það er áhyggjuefni enda var atvinnuleysi fyrir víðast mun minna en í þeim greinum sem að ofan voru nefndar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum