Hoppa yfir valmynd
8. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruskiptin í apríl 2009

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 7. maí 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands nam útflutningur vöru á fob virði 31,7 ma.kr. sem er eilítið minni útflutningur en í marsmánuði. Innflutningur vöru nam 29,4 ma.kr. sem er aftur á móti aukning frá því í mars þegar innflutningurinn nam 26,5 ma.kr.

Það sem skýrir aukinn innflutning í apríl er aukinn innflutningur hrá- og rekstrarvara en þessi liður sveiflast nú meira en áður þar sem sveiflukenndur innflutningur á súráli hefur meira vægi en áður. Verðmæti annars innflutnings er nokkuð óbreytt á milli mánaða. Þá eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra sjávarafurða hafi dregist saman á milli mánaða. Verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur lækkað í efnahagslægð Vesturlanda, mest í ferskum botnfiskafurðum. Þá dróst heildaraflinn nokkuð saman á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við fyrsta fjórðung sl. árs og munar þar mikið um litla sem enga loðnuveiði á nýafstaðinni vertíð. Auk þess hefur gætt nokkurrar sölutregðu á undanförnum mánuðum og birgðir hafa aukist. Búist er við að jafnvægi framboðs og eftirspurnar aukist nú þegar verð hefur lækkað. Verðmæti útflutts áls er nær óbreytt á milli mánaða. Gengislækkun krónunnar hefur vegið á móti mikilli lækkun álverðs í erlendri mynt í kjölfar gríðarlegs samdráttar eftir álafurðum. Þrátt fyrir lækkun álverðs eru álverin hér á landi í fullri framleiðslu enda flest hagkvæm í alþjóðlegum samanburði auk þess sem þau eru með langtímasamninga um raforkukaup.

Á fyrsta fjórðungi ársins jókst útflutningur áls að magni til um 26% en álver Alcoa Fjarðaáls var ekki komið í fulla framleiðslugetu á fyrsta fjórðungi sl. árs. Í heild jókst vöruútflutningur alls að magni til um 8,9% á fyrsta fjórðungi ársins en útflutningur sjávarafurða dróst aftur á móti lítillega saman. Að magni til hefur innflutningur dregist gríðarlega saman eða sem nemur 43% á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við fyrsta fjórðung sl. árs. Samdrátturinn er mestur í innflutningi flutningatækja hvort sem er til einkanota eða atvinnurekstrar en einnig er mikill samdráttur í innflutningi fjárfestingarvara sem er góð vísbending um þróun fjárfestingar á árinu. Þá hefur innflutningur mat- og drykkjarvara til heimilisnota dregist saman um þriðjung en á móti er líklegt að neysla innlendrar neysluvöru sé að aukast.

Staðvirtur vöruinnflutningur án skipa og flugvéla janúar 2004 - apríl 2009



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum