Hoppa yfir valmynd
8. maí 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staða samningaferlis við skilanefndir og kröfuhafa „gömlu bankanna”

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 7. maí 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Frá því að stóru viðskiptabankarnir þrír Glitnir, Landsbanki og Kaupþing, sem í almennu tali eru nú kallaðir „gömlu bankarnir”, féllu í október 2008 hefur verið unnið að því að reisa nýja banka til að þjóna innlendum fjármálamarkaði, heimilum og atvinnulífi.

Verkefnið er umsvifamikið og mörg flókin úrlausnarefni. Frá því að ný ríkisstjórn tók við í febrúar 2009 hefur verið unnið skipulega að þessu verkefni og stór skref tekin. Mikið hefur verið kallað eftir upplýsingum um stöðu mála. Þar sem framundan eru flóknar og viðamiklar samningaviðræður milli skilanefnda gömlu bankanna og og kröfuhafa annars vegar og nýju bankanna hinsvegar er erfitt að upplýsa á þessari stundu um einstök atriði. Engu að síður vilja stjórnvöld upplýsa almenning eins mikið og unnt er og því er hér rakið það sem unnist hefur.

Nýju bankarnir, nú Íslandsbanki, NBI, og Nýja Kaupþing voru stofnaðir í október í kjölfar þess að gömlu bankarnir féllu. Fjármálaeftirlitið tilkynnti að gömlu bönkunum yrði greitt fyrir eignir sem yfirfærðar voru í nýju bankana umfram skuldir þeirra, en fyrst og fremst var um innstæður sparifjáreigenda að ræða. Greiðslurnar yrðu skuldabréf sem útgefið yrði af nýju bönkunum. Í upphafi var gert ráð fyrir því að skilmálar skuldabréfanna tækju mið af mati Deloitte á eignum nýju bankanna.

Til þess að undirbúa og fara með samningaviðræður við skilanefndir gömlu bankanna og kröfuhafa um þessi skuldabréf voru reyndur fjármálamaður, Þorsteinn Þorsteinsson, og ráðgjafafyrirtækið Hawkpoint ráðin til þessa verks af fjármálaráðuneytinu.

Til viðbótar við verðmat Deloitte á eignum nýju bankanna var talið nauðsynlegt fyrir framgang samningaviðræðnanna að fá nákvæmar upplýsingar um fjárhagsstöðu nýju bankanna, m.a. efnahagsreikninga þeirra og raunhæfar viðskiptaáætlanir sem sýndu að nýju bankarnir yrðu starfshæfar og líffvænlegar einingar sem gætu staðið við skuldbindingar sínar og gætu þar með greitt af fyrrgreindu skuldabréfi.

Til að undirbúa samningaviðræður tóku ráðgjafarnir saman þau atriði sem þurfti að vinna frekar til að samningaviðræður gætu hafist, þar með talið stöðu nýju bankanna og væntingar skilanefnda, ráðgjafa þeirra og kröfuhafa og vinnuferil við fjármögnun nýju bankanna. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi:

  • Misvægi er í efnahagsreikningum nýju bankanna bæði hvað varðar gjaldeyri og verðtryggingu sem leiðir til aukinnar áhættu í rekstri þeirra. Vinna þarf bug á þessu misvægi áður en hægt er að leggja fram áreiðanlegar viðskiptaáætlanir.
  • Mikil óvissa í þjóðarbúskapnum og væntanleg skuldbreyting lána vegna greiðsluerfiðleika gerir það óraunhæft að ætla að ná samkomulagi við kröfuhafa um aðeins eitt eignaverð.
  • Auk verðmats Deloitte þarf að fá fram frekari fjárhagslegar upplýsingar um nýju bankana, m.a. viðskiptaáætlanir vegna samninga um skuldabréfið sem taka mið af lausn á áðurnefndu misvægi.
  • Skortur á upplýsingagjöf til kröfuhafa hafði dregið úr trausti þeirra og þeir töldu að nægilegrar sanngirni gætti ekki í tímaáætlun við samningaviðræður og að ekki væri tekið tillit til þarfa þeirra til að vinna úr upplýsingum sem lagðar yrðu fram.
  • Fjármögnun bankanna af hálfu ríkisins og útgáfa skuldabréfsins til kröfuhafa þurfi að gerast á sama tíma, en ekki sitt í hvoru lagi.

Ráðgjafarnir hafa í framhaldi af þessum niðurstöðum unnið fyrir fjármálaráðuneytið og í samvinnu við önnur ráðuneyti og Seðlabankann að því að undirbúa samningaviðræður um skuldabréfið. Undirbúningsvinna gengur eftir atvikum vel.

  • Unnið hefur verið hörðum höndum í nýju bönkunum við þá vinnu sem nauðsynlegt er að fari fram þar og mikill árangur hefur náðst t.d. varðandi viðskiptaáætlanir þar sem tekið er á hlutum eins og skuldbreytingu lána. Það sem helst stendur enn útaf borðinu er misvægi í efnahagsreikningi bankanna sem verið er að vinna að lausn á.
  • Vinna vegna undirbúnings endurskoðunar stofnefnahagsreiknings og samræming á henni hefur farið fram á vegum Ríkisendurskoðunar í samvinnu við fjármálaráðuneytið.
  • Samskipti við skilanefndir, ráðgjafa þeirra og kröfuhafa hafa batnað með aukinni upplýsingagjöf og bættum samskiptum og það virðist sem dregið hafi úr tortryggni.
  • Skýrslur Deloitte liggja nú fyrir og upplýsingar í þeim og miðlun til samningsaðila hefur farið fram.

Eins og sést á ofangreindu er undirbúningur viðræðna langt kominn. Þegar sest verður að samningaborðinu munu ráðgjafarnir leggja fram samningsdrög fyrir hvern banka um sig fyrir samningsaðila að undangengnu samráði við ríkisstjórn og nýju bankana.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum