Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Meira um breytingar á vaxtabótakerfinu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. apríl 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins 26. mars sl. var fjallað um fyrirhugaðar breytingar á vaxtabótakerfinu samkvæmt frumvarpi sem var til meðferðar á Alþingi.

Í því frumvarpi var gert ráð fyrir 55% hækkun á hámarksfjárhæð vaxtabóta samhliða 25% hækkun hámarksfjárhæðar vaxtagjalda. Jafnframt var lagt til að tekjuskerðingarhlutfall kerfisins yrði hækkað úr 6% úr 7,5% þannig að bæturnar skiluðu sér fyrst og fremst til tekjulægri fjölskyldna. Kostnaður ríkissjóðs af þessum breytingum var talinn verða nálægt 2 milljörðum króna til viðbótar þeim 8 milljarða króna útgjöldum í formi vaxtabóta sem þegar hafði verið gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2009. Í þessu samhengi er rétt að nefna að í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir 5,7% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum vaxtabótakerfisins.

Framangreint frumvarp sem nú hefur verið samþykkt sem lög frá Alþingi tók hins vegar nokkrum breytingum í meðförum þingsins. Tillaga um hækkun á tekjuskerðingarhlutfallinu úr 6% í 7,5% mætti talsverðri andstöðu vegna þess að í vissum tilvikum gat sú breyting leitt til þess að rétthafar vaxtabóta yrðu verr settir eftir breytinguna en fyrir hana þrátt fyrir mikla hækkun á vaxtagjöldum. Jafnframt var bent á að vaxtabyrði fjölskyldna hefði almennt farið hækkandi á undanförnum mánuðum vegna vaxandi greiðsluerfiðleika, meðal annars með töku dýrra skammtímalána. Sú þróun hefði leitt til þess að mun algengara væri nú en áður að meðalvaxtabyrði af lánum færi umfram það 5% hámark sem vaxtabótakerfið setur að óbreyttu.

Meðal annars í ljósi þessara athugasemda var fyrri tillögum um breytingar á vaxtabótakerfinu breytt í þá veru að í stað þess að hækka fjárhæð hámarksvaxtagjalda, sem mynda stofn til vaxtabóta, um 25% var hámarkshlutfall vaxtagjalda af skuldum hækkað úr 5% í 7%. Jafnframt var fallið frá þeirri tillögu að hækka tekjuskerðingarhlutfallið úr 6% í 7,5% samhliða því að dregið er úr fyrri áformum um hækkun hámarksbóta, eða úr 55% í 30%. Með þessum breytingum var því markmiði náð að vaxtabætur rétthafa samkvæmt breyttu kerfi yrðu aldrei lægri en samkvæmt eldra kerfi.

Í þessu felst að hámarksvaxtabætur hjóna eða sambýlisfólks hækka úr 314.134 krónum, en það var sú fjárhæð sem gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga, í 408.374 krónur. Viðbótarhækkunin nemur samtals um 94 þús.kr. á ári, en samsvarandi hækkun fyrir einstaklinga og einstæða foreldra er 57 þús. og 73 þús.kr. Þessi hækkun kemur sem fyrr segir til viðbótar þeirri 5,7% hækkun sem gert var ráð fyrir í fjárlögum sem þýðir að hámarksvaxtabætur til hjóna og sambýlisfólks hækka um 111 þús. krónur milli áranna 2008 og 2009. Kostnaðarauki ríkissjóðs af framangreindum breytingum er áætlaður svipaður og áður, eða kringum 2 milljarðar króna. Rétt er að árétta að hér er um einsskiptisaðgerð að ræða sem ætlað er að létta undir með heimilum landsins. Ákvörðun vaxtabóta mun samkvæmt venju liggja fyrir við álagningu opinberra gjalda hinn 1. ágúst nk.

Af framansögðu má ljóst vera að íslenska vaxtabótakerfið er æði flókið, enda háð margvíslegum ólíkum breytum eins og tekjum, skuldastöðu, vaxtabyrði, nettóeign og síðast en ekki síst hjúskaparstöðu vaxtabótaþega. Slík kerfi vekja óhjákvæmilega upp spurningar um nauðsyn endurskoðunar í átt til einföldunar og meira gegnsæis gagnvart þeim sem þeirra njóta.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum