Hoppa yfir valmynd
26. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staðgreiðslugögn

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 26. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðuneytið hefur um nokkurt skeið unnið upplýsingar upp úr staðgreiðslugögnum. Um er að ræða mánaðarlegar skrár um launagreiðslur og staðgreiðslu tekjuskatts.

Allar kennitölur í skránum eru dulkóðaðar og því er hvorki hægt að rekja upplýsingar til einstakra launþega né launagreiðenda. Nokkur tími líður frá raunverulegu launatímabili þar til upplýsingar eru orðnar nothæfar til greiningar.

Kosturinn við staðgreiðslugögn er að í þeim er að finna nýjar upplýsingar um ástand á vinnumarkaði, launaþróun og undirliggjandi skýringarbreytur á tekju- og útsvarsstofni ríkissjóðs og sveitarfélaga. Með því að greina á milli þeirra tekna þar sem greitt er í lífeyrissjóð og þar sem það er ekki gert er hægt að greina nokkurn veginn á milli tekna á vinnumarkaði og utan hans, eða þeim sem njóta lífeyris eða bóta almannatrygginga. Þar sem ekki er greitt í lífeyrissjóð af sumum launagreiðslum er ekki einfalt að afmarka hópinn á vinnumarkaði. Vekja má athygli á því að greitt er í lífeyrissjóð af atvinnuleysisbótum enda eru atvinnulausir þátttakendur á vinnumarkaði.

Laun og fjöldi þeirra sem greiða í lífeyrissjóð

Á meðfylgjandi mynd er sýnt hvernig þróun tveggja stærða sem hægt er að vinna úr staðgreiðslugögnum var árið 2008. Gögn fyrir tvo mánuði yfirstandandi árs eru enn það ófullkomin að ekki er hægt að draga marktækar ályktanir af þeim.

Myndin sýnir breytingu frá sama mánuði fyrra árs, annars vegar á fjölda þeirra sem fengu laun sem greitt var af í lífeyrissjóð og hins vegar breytingu á meðallaunum hópsins. Fjöldi launamanna hafði verið að vaxa á um og yfir 4% árshraða um allnokkurt skeið en í fyrra dró úr vextinum og í ágúst var fjöldinn sá sami og hafði verið árinu fyrr. Síðan þá hefur launamönnum fækkað. Meðallaun hafa hins vegar haldið áfram að hækka og var sú hækkun mest í október en það kann að stafa af uppgjörsgreiðslum vegna uppsagna í bankakerfinu. Meðallaun héldu áfram að hækka út árið 2008. Hluti skýringarinnar á því kann að vera að þeir sem voru að hverfa af vinnumarkaði hafi verið með lægri laun að meðaltali en þeir sem eftir voru.

Fyrirhugað er að nýta staðgreiðslugögn í auknum mæli til þess að vakta efnahagsástandið. Það hefur þó einhver áhrif ef það verður algengara að dráttur verði á skilum launagreiðenda á staðgreiðslu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum