Hoppa yfir valmynd
17. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurgreiðsla vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutækjum sem flutt hafa verið úr landi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 12. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Þann 11. desember 2008 voru lögfestar tímabundnar breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og lögum um virðisaukaskatt, sem heimila endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af notuðum ökutækjum sem eru afskráð og flutt úr landi.

Breytingunni er ætlað að greiða fyrir sölu notaðra ökutækja úr landi en við gildistöku laganna var útflutningur á ökutækjum þegar hafinn í þó nokkrum mæli.

Samkvæmt lögunum er heimilt að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af afskráðum ökutækjum sem flutt eru úr landi fram til 31. desember 2009. Endurgreiðslan tekur mið af þeirri fjárhæð sem greidd var í vörugjald og virðisaukaskatt við innflutning ökutækis að teknu tilliti til aldurs þess. Þannig lækkar viðmiðunarfjárhæð endurgreiðslu um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð, fyrstu 12 mánuðina eftir skráningu ökutækisins, og 1,5% fyrir hvern mánuð eftir það. Samanlögð endurgreiðsla vörugjalds og virðisaukaskatts má þó ekki vera hærri en 2.000.000 kr. á hvert ökutæki.

Á þeim tæpu þremur mánuðum sem lögin hafa verið í gildi hefur verið sótt um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af 190 ökutækjum. Af þessum 190 umsóknum hefur 19 verið hafnað, 73 umsóknir hafa verið afgreiddar og 98 bíða afgreiðslu. Í heildina hafa verið endurgreiddar tæplega 91.000.000 kr. eða að meðaltali 1.250.000 kr. á hvert ökutæki.

Óhætt er að fullyrða að endurgreiðslur vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutækjum sem flutt hafa verið úr landi fari hægar af stað heldur en búist var við í upphafi en þá var gert ráð fyrir að sótt yrði um endurgreiðslur af allt að 5.000 ökutækjum á gildistíma laganna. Fjárhæð endurgreiðslu á hvert ökutæki er hins vegar að meðaltali hærri heldur en búist var við.

Færri umsóknir um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bílaleigubifreiðum hafa verið afgreiddar heldur en búist var við en nú bíða um 50 umsóknir um endurgreiðslu gjalda af bílaleigubifreiðum afgreiðslu. Mun lægra vörugjald er greitt við innflutning bílaleigubifreiða auk þess sem eigendur bílaleigubifreiða njóta innskattsréttar og því nema endurgreiðslur vegna þeirra mun lægri fjárhæðum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum