Hoppa yfir valmynd
13. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Atvinnuleysi vex mishratt eftir greinum og kynjum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 12. mars 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Sú mikla aukning atvinnuleysis sem gengur yfir á sér enga hliðstæðu lengur í íslenskri atvinnusögu.

Í lok janúar voru 7.100 karlar á skrá Vinnumálastofnunar um atvinnulausa en 4.200 konur. Þetta eru 7,4% af meðalfjölda karla við störf árið 2008 samkvæmt vinnumarkaðskönnunum Hagstofunnar en 5,1% af meðalfjölda kvenna.

Rétt er að halda því til haga að mismunandi er eftir kynjum hversu hátt hlutfall er við hlutastörf og því gefa þessar tölur ekki nákvæma vísbendingu um hlutfallslegt atvinnuleysi en eru aftur á móti ágæt vísbending um það hvar samdráttur í atvinnulífinu er mestur og hvernig hann bitnar á kynjunum.

Myndin hér fyrir neðan sýnir fjölda þeirra sem skráðir voru atvinnulausir í lok janúar sem hlutfall af fjölda starfandi í sömu atvinnugrein árið 2008.

Atvinnulausum hefur fjölgað mjög síðan þá en nákvæmar tölur um atvinnuskiptingu þeirra liggja ekki fyrir. Myndin gefur þó nokkuð skýra mynd af því sem hafði gerst í atvinnulífinu fram að þeim tíma. Af myndinni má sjá að atvinna hefur dregist mjög mismunandi mikið saman eftir atvinnugreinum og að almennt er munurinn milli atvinnugreina mun meiri en milli kynja innan sömu greinar.

Tölurnar segja að yfir fjórðungur kvenna við fiskveiðar hafi misst atvinnuna frá því í fyrra en vegna þess hve fáar konur starfa við greinina er mat Hagstofunnar á fjölda þeirra mikilli óvissu háð. Meira er að marka tölur úr fjölmennari atvinnugreinum. Tvöfalt fleiri konur en karlar hafa misst vinnuna í flokknum ýmis sérhæfð þjónusta, þar sem m.a. er að finna þjónustu við atvinnurekstur.

Í samgöngum hafa hlutfallslega mun fleiri konur en karlar misst vinnuna og hið sama gildir um veitinga- og gistihúsarekstur. Annars staðar er munurinn minni. Atvinna hefur dregist mjög lítið saman í opinberu eða hálf-opinberu þjónustugreinunum en næstum jafn mikið í fiskveiðum og fiskvinnslu eins og þeim atvinnugreinum sem mest finna fyrir samdrætti í framkvæmdum og einkaneyslu. Þetta kann að stafa af því að þessar greinar hafa verið að draga mannaflanotkun sína saman á undanförnum árum meðan framleiðni hefur vaxið.

Fjöldi skráðra atvinnulausra í lok Janúar 2009 sem hlutfall af ársfjölda starfandi eftir atvinnugreinum og kyni 2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum