Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um afnám eftirlaunalaga

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 19. febúar 2009 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar hefur fjármálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um afnám laga nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Með eftirlaunalögunum voru æðstu embættismönnum þjóðarinnar veitt betri eftirlaunaréttindi en almennt tíðkast og þeim tryggð ákveðin lágmarksréttindi til eftirlauna umfram þau réttindi sem opinberir starfsmenn njóta samkvæmt lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Yfirlýstur tilgangur laganna var m.a. að gera alþingismönnum og ráðherrum sem verið hafa lengi í störfum á opinberum vettvangi betur kleift að draga sig í hlé og stuðla þannig að meiri endurnýjun í þjóðmálum að því leyti.

Frá því lögin voru sett hafa þau hins vegar sætt margs konar gagnrýni. Til að mæta henni var lögunum breytt á nýliðnu haustþingi og dregið úr réttindum. Þrátt fyrir þær breytingar er engu að síður ljóst að ýmsir þættir í eftirlaunakerfi æðstu embættismanna þjóðarinnar víkja eftir sem áður frá almennum lífeyrisréttindum. Í frumvarpinu er því lagt til að réttindin verði samræmd að fullu við réttindi annarra starfsmanna ríkisins með því að afnema eftirlaunalögin frá og með 1. apríl 2009, en þó þannig að þau haldi gildi sínu gagnvart núverandi forseta Íslands og hæstaréttardómurum sem skipaðir hafa verið fyrir gildistöku laganna á meðan þeir gegna þeim embættum sínum. Jafnframt er gert ráð fyrir því að þeir sem öðlast hafa eftirlaunarétt samkvæmt eftirlaunalögunum haldi áunnum réttindum.

Eftirlaunalögin ná að jafnaði til innvinnslu eftirlaunaréttinda hjá 77 starfandi einstaklingum, auk geymdra réttinda þeirra sem áður hafa gegnt þessum störfum. Alls áttu 633 einstaklingar réttindi samkvæmt lögunum í árslok 2007 og nam áfallin eftirlaunaskuldbinding ríkissjóðs vegna þeirra rúmlega 12 milljörðum króna. Samkvæmt frumvarpinu eru áunnin réttindi varðveitt og því munu áhrif þess á skuldbindingar ríkissjóðs koma fram smám saman eftir því sem árin líða. Megináhrif frumvarpsins á útgjöld ríkissjóðs felast í því að réttindaávinnsla samkvæmt eftirlaunalögunum hættir og bindur því ríkissjóði ekki þyngri bagga en þegar er orðið.

Unnið hefur verið tryggingafræðilegt mat fyrir fjármálaráðuneytið á áhrifum frumvarpsins. Þar er gengið út frá hópnum sem átti réttindi samkvæmt núgildandi lögum í árslok 2007. Til langs tíma litið mun afnám laganna leiða til þess að þessi sérstaka skuldbinding sem myndast hefur mun fjara alveg út. Strax við gildistöku laganna myndi heildarskuldbinding ríkissjóðs vegna alls hópsins sem lögin ná til verða 356 m.kr. lægri en í árslok 2007, samkvæmt matinu, og eftir fjögur ár ætti skuldbindingin að hafa lækkað um 1.689 m.kr., eða sem svarar til 14% af skuldbindingunni í árslok 2007.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum