Hoppa yfir valmynd
12. desember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvörp fjármálaráðherra til meðferðar á Alþingi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 11. desember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Óvenjumörg frumvörp á ábyrgðarsviði fjármálaráðherra eru nú til meðferðar á Alþingi. Má þar sérstaklega nefna frumvörp um breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögum nr. 3/2006, um ársreikninga.

Tekjuskattur

Tekjuskattsfrumvarpið inniheldur meðal annars tillögu þess efnis að öllum fjármálastofnunum verði gert skylt að senda skattyfirvöldum ár hvert upplýsingar um bankainnstæður og innstæður í sjóðum ásamt upplýsingum um vexti af viðkomandi innstæðum. Fram til þessa hafa bankar og sparisjóðir ekki sent umræddar upplýsingar óumbeðið, heldur hefur tilgreining þeirra á skattframtali alfarið verið háð vilja einstakra framteljenda. Þetta fyrirkomulag, þ.e. að ekki liggi fyrir sundurliðaðar upplýsingar um afdreginn fjármagnstekjuskatt, hefur gert allt eftirlit með þeim skattstofni nánast óframkvæmanlegt. Ljóst er að verði umrædd tillaga lögfest stuðlar hún að mun meira jafnræði milli skattþegnanna, ekki síst í ljósi þess að ýmsar bótagreiðslur, svo sem bætur almannatrygginga, eru ákvarðaðar á grundvelli framtalinna heildartekna hjá rétthöfum þeirra. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum ársins 2008 fengu meira en 35 þúsund einstaklingar greiddar einhvers konar tekjutengdar bætur á árinu 2007 án þess að fram væru taldar innstæður í bönkum og sparisjóðum. Ekki er ólíklegt að einhver hluti þess hóps hafi látið hjá líða að telja fram inneignir sínar og vaxtatekjur. Sjálfvirk skil á umræddum bankaupplýsingum eru því ekki aðeins mikilvæg aðhaldsaðgerð gegn undandrætti tekna frá skatti, heldur skapa þau mótvægi gegn misnotkun á bótarétti frá hinu opinbera. Síðast en ekki síst munu slík skil leiða til þess að umræddar upplýsingar verða forskráðar á framtölin til mikillar einföldunar og hagræðis fyrir framteljendur.

Lífeyrissjóðir

Í lífeyrissjóðafrumvarpinu er að finna nokkrar breytingar sem vert er að nefna. Meðal annars er lögð til sú breyting að þeim aðilum sem náð hafa 60 ára aldri verði heimilt að taka út séreignarsparnað sinn í einu lagi í stað þess að dreifa greiðslu á sjö ár eins og nú er. Þá er lagt til að ekkert aldurshámark verði á því hvenær einstaklingur getur hafið töku lífeyris, en í gildandi lögum er það hámark bundið við 75 ára aldur. Tillögur að ýmsum breytingum sem markast af því ástandi sem nú ríkir á innlendum fjármálamarkaði er einnig að finna í frumvarpinu. Þar er meðal annars lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign sinni í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, en í gildandi lögum er umrætt hlutfall 10%. Jafnframt er lagt til að lögfestar verði samræmdar reglur um fjárfestingastefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við séreignarlífeyrissparnaði. Samkvæmt gildandi lögum er slíkur sparnaður í vörslu lífeyrissjóða háður sömu takmörkunum varðandi fjárfestingar og samtryggingarsparnaðurinn á meðan aðrir vörsluaðilar hafa ótakmarkað frelsi til að móta fjárfestingarstefnu sína. Í frumvarpinu er lagt til, bæði í varúðarskyni og til að gæta samræmis, að allir vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar verði bundnir tilteknum lágmarksskilyrðum varðandi fjárfestingar. Að lokum er í frumvarpinu að finna bráðabirgðaákvæði þess efnis að munur á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga miðað við tryggingafræðilega athugun í lok árs 2008 geti verið neikvæður um allt að 15% í stað 10% skv. gildandi lögum án þess að skylt verði að skerða réttindi eða hækka iðgjald.

Ársreikningar

Breytingar á ársreikningslögum eru lagðar fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir í efnahagslífi landsins og þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á gengi íslensku krónunnar á árinu 2008. Sú þróun vekur í sumum tilfellum óneitanlega upp þá spurningu hvaða gjaldmiðill í skilningi ársreikningslaganna gefi í raun rétta mynd af afkomu íslenskra fyrirtækja á árinu 2008. Samkvæmt lögum um ársreikninga skal umsókn um heimild til að færa bókhald og gera ársreikning í erlendum gjaldmiðli berast ársreikningaskrá tveimur mánuðum fyrir upphaf reikningsárs, eða í síðasta lagi 31. október 2007 fyrir reikningsárið 2008. Í ljósi þess að útilokað var að sjá fyrir þá óvæntu stöðu sem upp er komin varðandi skráningu íslensku krónunnar standa ýmis rök til þess að opnað verði á þann möguleika að félögum sem ekki sóttu um heimild til þess að færa bókhald og semja ársreikning í erlendri mynt á reikningsárinu 2008 verði gert kleift að sækja um slíka heimild afturvirkt. Slíka tillögu er að finna í framangreindu frumvarpi að því gefnu að skilyrði ársreikningslaga fyrir þeirri heimild séu uppfyllt í ársbyrjun 2008. Jafnframt er lagt til að umsóknarfrestur til að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli á reikningsárinu 2009 verði framlengdur til 15. desember nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum