Hoppa yfir valmynd
8. desember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Reglur um greiðslu barnabóta

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. desember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt lögum skal ríkissjóður greiða barnabætur vegna hvers barns innan 18 ára og eru þær ákveðnar við álagningu opinberra gjalda á einstaklinga 1. ágúst ár hvert.

Meginhluti barnabóta er tekjutengdur og tekur mið af tekjum fyrra árs, en það á ekki við um sérstakar barnabætur sem greiddar eru með börnum yngri en 7 ára. Í reglugerð um greiðslu barnabóta, segir að barnabætur skulu greiddar með tveimur jöfnum greiðslum eftir að álagning opinberra gjalda liggur fyrir. Fyrri greiðslan skal greidd eigi síðar en 1. ágúst en síðari greiðslan eigi síðar en 1. nóvember. Þar er einnig kveðið á um fyrirframgreiðslu barnabóta þar til álagningin liggur fyrir. Við útreikning á skerðingu þeirra vegna tekna skal taka tillit til fyrirliggjandi upplýsinga um staðgreiðsluskyldar tekjur vegna síðustu tólf mánaða ásamt upplýsingum úr framtali fyrra árs, um tekjur utan staðgreiðslu og eignastöðu í árslok. Fyrirframgreiðsla skal nema 50% af áætluðum barnabótum ársins og greiðist með tveimur jöfnum greiðslum, þ.e. 1. febrúar og 1. maí.

Á grundvelli framangreindra reglna fengu barnafjölskyldur ákvarðaðar barnabætur miðað við heilt ár við álagningu opinberra gjalda 1. ágúst sl. Áður en þær barnabætur voru greiddar út var dregin frá sú fjárhæð sem viðkomandi fjölskylda hafði fengið greidda fyrirfram í barnabætur 1. febrúar og 1. maí. Fjárhæðinni sem eftir stóð af barnabótum ársins 2008 var síðan skipt niður á tvo greiðsludaga, þ.e. 1. ágúst og 1. nóvember sl. Með öðrum orðum, barnabætur vegna ársins 2008 hafa þegar verið greiddar út að fullu.

Að óbreyttum reglum mun 1. greiðsla barnabóta vegna ársins 2009 berast rétthöfum 1. febrúar nk., eða fjórðungur þeirra barnabóta sem áætlað er að verði greiddar viðkomandi á árinu 2009. Annar fjórðungur er síðan greiddur út 1. maí. Rétt er að taka fram að upplýsingar um staðgreiðsluskyldar tekjur fyrir desembermánuð 2008 liggja ekki fyrir fyrr en í janúar sem þýðir að barnabætur vegna ársins 2009 sem byggja á tekjum ársins 2008 verða ekki greiddar út fyrr en í fyrsta lagi 1. febrúar. Þegar álagning opinberra gjalda liggur fyrir 1. ágúst er fyrirgreiðsla barnabóta dregin frá endanlegri ákvörðun barnabóta fyrir árið 2009 og þeirri fjárhæð sem eftir stendur er skipt á tvo greiðsludaga, þ.e. 1. ágúst og 1. nóvember.

Nú eru uppi áform um að bjóða upp á mánaðarlega greiðslu barnabóta á árinu 2009 og myndi fyrsta greiðsla berast fjölskyldum 1. febrúar nk. Með því myndu barnabæturnar berast fjölskyldum með jafnari hætti en nú gerist, þ.e. mánaðarlega en ekki á þriggja mánaða fresti. Það þýðir að fjölskylda X með 3 börn, þar af eitt yngra en 7 ára og 300 þús.kr. í tekjur á mánuði eða minna 2008 sem áætlað er að fái alls 545 þús.kr. barnabætur á árinu 2009, fengi 45 þús.kr. 1. febrúar nk. og síðan mánaðarlegar greiðslur eftir það. Samsvarandi fjárhæð fyrir einstætt foreldri með 150 þús.kr. eða minna í tekjur á árinu 2008 eru 790 þús.kr. í barnabætur fyrir árið allt eða um 66 þús.kr. á mánuði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum