Hoppa yfir valmynd
5. desember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland verði eitt tollumdæmi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 4. desember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fram er komið á Alþingi frumvarp þar sem lagt er til að landið verði gert að einu tollumdæmi.

Frá árinu 2007 hefur landinu verið skipt upp í 8 tollumdæmi en þau voru áður 26. Tollstjórinn í Reykjavík er í dag eini tollstjórinn sem heyrir undir fjármálaráðuneytið, en það ráðuneyti fer með faglega yfirstjórn tollamála í landinu. Aðrir tollstjórar eru sýslumenn og lögreglustjórar sem heyra undir dómsmálaráðherra og er því fjárhagsleg og stjórnunarleg ábyrgð tollamála á hendi tveggja ráðuneyta í dag. Þetta fyrirkomulag hefur valdið ýmsum vandkvæðum við stefnumótun í tollamálum, samræmingu tollframkvæmdar og allri áætlanagerð varðandi tollamál almennt.

Með frumvarpinu er sem fyrr segir lagt til að skrefið verði stigið til fulls í því að fækka tollumdæmum og tollembættum. Landið verði gert að einu umdæmi sem stjórnað verði af einu embætti, embætti tollstjóra og þar með verði fagleg, fjárhagsleg og stjórnunarleg ábyrgð færð á eina hendi. Þó er miðað við að tollstjóri geti með samningum falið sýslumönnum og lögreglustjórum að annast tiltekna þætti tollframkvæmdar í umdæmum þeirra. Með því móti mun umrædd breyting hafa óveruleg áhrif á almenna þjónustu tollyfirvalda við fyrirtæki og einstaklinga hvar sem er á landinu. Þetta nýja fyrirkomulag mun hins vegar stuðla að aukinni hagræðingu og einföldun í rekstri viðkomandi embætta, jafnframt því að auðvelda stefnumótun í tollamálum, skipulagningu tollframkvæmdar og alla áætlanagerð varðandi tollstarfsemina sjálfa til framtíðar.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur þegar ákveðna sérstöðu meðal tollembættanna samkvæmt gildandi lögum. Því liggur beinast við að fela embættinu umsjón tollamála á landinu öllu eins og lagt er til í frumvarpinu. Samhliða er lagt til að heiti embættis tollstjórans í Reykjavík verði breytt í embætti tollstjóra. Ekki er gert ráð fyrir að breytingin hafi í för með sér að starfsmönnum tollyfirvalda á landsbyggðinni fækki enda verður verkefnum á sviði tollamála áfram sinnt þar eins og verið hefur. Þvert á móti kunna við sameininguna að skapast ýmsir möguleikar á tilflutningi verkefna frá höfuðborgarsvæðinu til starfsstöðva tollyfirvalda úti á landi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum