Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Verðlagsþróun

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 27. nóvember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagstofa Íslands birti verðbólgutölur fyrir nóvember á miðvikudaginn.

Verðbólgan reyndist vera 17,1% í mánuðinum en 19,5% ef horft er fram hjá húsnæðislið. Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,74% frá fyrra mánuði sem er talsvert undir væntingum greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir rúmlega 2% hækkun milli mánaða.

Verðbólga hefur aukist verulega á árinu. Í janúar mældist verðbólga 5,8% en eftir að gengi krónunnar tók að lækka í mars hefur verðbólga verið á stöðugri uppleið og hefur hækkað um rúmlega 11 prósentustig frá upphafi ársins meðan krónuverð fyrir hverja evru hefur nær tvöfaldast frá upphafi ársins.

Verðbólguþróunin undanfarin misseri hefur nær alfarið stjórnast af gengisþróun meðan dregið hefur úr áhrifum annarra verðbólguvalda sem hafa verið áberandi í uppsveiflu liðinna ára. Á allra síðustu mánuðum hefur hratt dregið úr verðbólguþrýstingi launa eftir því sem atvinnuleysi hefur aukist og þrengst hefur um rekstur fyrirtækja. Einnig hefur verulega dregið úr þrýstingi vegna þróunar á fasteignaverði en í ágúst varð verðbólga án húsnæðis hærri en heildarverðbólga í fyrsta sinn síðan í maí árið 2002, sem gefur til kynna að þróun á fasteignaverði er farin að draga úr verðbólgu. Þá hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað verulega en frá því að verðið náði hámarki í júní hefur það lækkað um tæp 65%. Lækkun heimsmarkaðsverðs hefur ekki komið að fullu leyti fram í verðlagi hér á landi sem má að mestu leyti rekja til gengisþróunar.

Verðbólguhorfur næstu misseri eru nokkuð dökkar. Skráð gengi krónunnar hefur lækkað um tæp 14% frá upphafi mánaðar sem bætist við verulegt gengisfall síðustu mánaða. Innan skamms verður krónan sett á flot í samræmi við samkomulag ríkisstjórnarinnar við Alþjóða- gjaldeyrissjóðinn. Þá eru allar horfur á að fyrst um sinn verði mikill söluþrýstingur á krónuna og því líklegt að hún veikist umtalsvert og að misræmið minnki milli skráðs gengis utan Íslands og gengisskráningar Seðlabanka Íslands. Á móti kemur að ástandið á gengismarkaði hefur verið þannig að vænt gengisveiking hefur dregið úr hvata fyrir t.d. útflytjendur og fjárfesta til að kaupa krónur fyrir erlendan gjaldeyri. Því má ætla að kaupþrýstingur komi að einhverju leyti til móts við söluþrýsting á krónunni þegar hún verður sett á flot.

Á næstu misserum mun verðbólguþróun áfram stjórnast af gengisþróun og samdrætti í eftirspurn. Óvissan er sérlega mikil um þessar mundir því það er óljóst hversu mikið gengi krónunnar veikist þegar hún verður sett á flot og hve lengi það ástand varir. Þegar horft er lengra fram á næsta ár má gera ráð fyrir því að eftir því sem álagið á krónuna minnkar og framleiðsluslaki myndist í hagkerfinu eru allar forsendur fyrir því að verðbólga taki að minnka hratt á síðari hluta ársins 2009.

Verðbólga 2000-2008



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum