Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Munu erlendir ríkisborgarar flytjast héðan á næstunni?

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. nóvember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Atvinnuleysi eykst nú hratt og nær til bæði innlendra og erlendra starfsmanna.

Hér á eftir er fjallað um réttindi erlendra ríkisborgara til atvinnuleysisbóta ef þeir missa atvinnuna og hvaða áhrif þróun á vinnumarkaði er líkleg til að hafa á fjölda erlendra ríkisborgara hér á landi.

Einstaklingur sem kemur hingað erlendis frá til vinnu öðlast fullan rétt til atvinnuleysisbóta eftir 12 mánuði í starfi. Eftir það heldur hann réttinum í allt að 3 ár. Eftir 4 vikur á atvinnuleysisbótum hér getur hann fengið svokallað E-303 vottorð og getur þá farið til annars EES-ríkis í atvinnuleit. Vinnumálastofnunin þar í landi sér þá um að greiða hinar íslensku bætur í allt að þrjá mánuði. Snúi viðkomandi einstaklingur aftur til Íslands innan 3ja mánaða fær hann að nýju atvinnuleysisbætur hér á landi eins og reglur þar að lútandi segja til um.

Samanburður á aðstæðum hér á landi og í heimalandinu er mikilvægur áhrifavaldur í ákvörðun um búferlaflutninga á milli landa þegar atvinnuleysi er tekið að aukast hér á landi. Margir erlendir ríkisborgarar hafa starfað við mannvirkjagerð og langfjölmennasti hópur þeirra er frá Póllandi. Í þessu sambandi má nefna að meðalmánaðarlaun í byggingarstarfsemi í Póllandi á öðrum ársfjórðungi 2008 voru um 3.200 slot. Sú upphæð jafngilti 83.000 krónum í upphafi ársins 2008 en er nú um 146.000 krónur. Grunnatvinnuleysisbætur á Íslandi er nú 136.000 krónur á mánuði, sem, miðað við núverandi gengisskráningu, er svipuð upphæð og meðallaun í byggingarstarfsemi í Póllandi. Þá hefur atvinnuleysi í Póllandi farið minnkandi undanfarin ár en var þó 9,6% í lok júní 2008. Ef viðkomandi finnur ekki vinnu þar ytra á hann eða hún rétt á að koma aftur til Íslands innan 3 mánaða eða fara á atvinnuleysisbætur í Póllandi. Árið 2007 voru atvinnuleysisbætur í Póllandi um 532 slot á mánuði, sem jafngildir um 24.000 krónum á núverandi gengi. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að framfærslukostnaður í Póllandi er mun lægri en hér á landi. Kaupmáttur atvinnuleysisbóta þar er þó líklega lakari en kaupmáttur grunnatvinnuleysisbóta hér á landi. Það er því erfitt að segja til um það hve margir Pólverjar snúi aftur til Íslands fari þeir á annað borð til síns heima í atvinnuleit.

Annar áhrifavaldur á ákvörðun um búferlaflutning er íbúðaeign. Um fjórðungur erlendra hjóna og einstæðra foreldra á íbúð, en sama hlutfall fyrir Íslendinga er tvöfalt hærra. Sá hópur er talinn líklegri til að ílengjast. Því má gera ráð fyrir að þó nokkuð stór hluti erlendra ríkisborgara verði áfram hér á landi næstu misserin, jafnvel þótt þeir verði atvinnulausir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum