Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruskiptin í október 2008

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. nóvember 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands voru fluttar inn vörur í október fyrir 36,4 ma.kr. (fob) sem er nokkuð minni innflutningur en í september, þegar verðmæti innflutnings nam 42,4 ma.kr., þrátt fyrir töluverða hækkun innflutningsverðs samfara lækkun á gengi krónunnar en meðalgengisvísitalan hækkaði um 17,2% á milli mánaða.

Fluttar voru út vörur fyrir 47 ma.kr. sem er eilítið minni útflutningur en í september, þegar hann nam 50,2 ma.kr. Hafa ber í huga að í september voru flutt út skip og flugvélar fyrir um 7,5 ma.kr. en enn hafa ekki borist upplýsingar um verslun með flugvélar í október. Afgangurinn á vöruskiptunum í október nam því um 10,6 ma.kr. sem er mesti afgangur í einum mánuði síðan Hagstofa Íslands tók að birta mánaðarlegar tölur fyrir inn- og útflutning vara.

Þegar undirliðir innflutningsins eru skoðaðir nánar kemur í ljós að minnkunin nær yfir þá alla. Hún er þó minnst í verðmæti innflutnings á nauðsynjavörum eins og mat- og drykkjarvörum en margir innflytjendur hafa ekki getað átt eðlileg viðskipti við sína erlendu birgja á síðustu vikum sem skýrir eflaust ástæðu þess að verðmæti þessa innflutnings hefur ekki aukist samfara gengislækkuninni.

Hlutfallslega er minnkun innflutnings í október einna mest áberandi í innflutningi fólksbifreiða en hann dregst mikið saman í október auk þess sem mikill samdráttur var einnig í nýskráningum ökutækja í mánuðinum. Mikill samdráttur var einnig í innflutningi varanlegra og hálf-varanlegra neysluvara eins og heimilistækja og fatnaðar og þá var einnig nokkur samdráttur í innflutningi í eldsneyti og olíum en sá innflutningur er jafnan mjög sveiflukenndur á milli mánaða.

Verðmæti útfluttra sjávarafurða eykst á milli mánaða samfara lægra gengi krónunnar og sömu sögu má segja af verðmæti útflutts áls sem eykst þrátt fyrir lækkun á heimsmarkaðsverði. Erfitt er þó að meta hversu stór hluti útflutningstekna í október hefur skilað sér til landsins þar sem greiðsluskil hafa gengið erfiðlega og margir útflytjendur hafa þ.a.l. beðið sína kaupendur að bíða með greiðslur. En líkt og Hagstofan bendir sérstaklega á er verðmæti inn- og útflutnings mælt þegar vörur fara yfir landamæri óháð því hvenær gjaldeyrisskil vegna þeirra fara fram.

Mánaðarlegur vöruskiptajöfnuður

Í lok sl. viku birti Hagstofa Íslands uppfærðar tölur fyrir vöruviðskiptin á fyrstu níu mánuðum ársins. Í ljós kemur að nokkur útflutningur var á flugvélum í september sem ekki kom fram í bráðabirgðatölum stofnunarinnar. Þetta þýðir að afgangur var á vöruskiptunum í september sem nam 7,8 ma.kr. og á sama hátt var meiri halli á vöruviðskiptunum í júlí heldur en áður var talið vegna nokkurs innflutnings á flugvélum.

Á fyrstu níu mánuðum ársins nam hallinn á vöruskiptunum því 42,5 ma.kr. en í haustspá fjármálaráðuneytisins, Þjóðarbúskapurinn – Haustskýrsla 2008, var spáð 15,7 ma.kr. halla fyrir árið í heild sinni. Atburðir undangenginna vikna hafa að sjálfsögðu breytt forsendum fyrir þeirri spá.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum